Vinícius Júnior er ein af skærustu stjörnum fótboltaheimsins en er afar umdeildur og þá sérstaklega á Spáni þar sem hann leikur með Real Madrid.
Vinícius er oft gagnrýndur fyrir leikaraskap og almennt væl og viðurkennir hann að það sé partur af sínum leik sem hann þurfi að laga.
„Ég verð svo pirraður þegar dómarar gefa leikmönnum ekki gult spjald fyrir að brjóta á mér. Svo kvarta ég einu sinni og þeir gefa mér gult spjald. Mér finnst það ósanngjarnt," sagði Vinícius meðal annars eftir 2-1 tap gegn Real Betis í spænsku deildinni. Vinícius fékk gult spjald á 86. mínútu í tapinu.
„Ég þarf að laga skapið mitt í þessum aðstæðum. Ég er 24 ára gamall og þarf að bæta hegðunina mína."
Vinícius Júnior var mjög svekktur þegar hann hlaut ekki Ballon d'Or verðlaunin í fyrra. Spænski miðjumaðurinn Rodri fékk verðlaunin.
„Það er fólk sem kýs um þessi verðlaun og ég vann ekki í þetta skiptið en ég mun hafa fleiri tækifæri til að fá þessi verðlaun.
„Það var félagið sem bað mig um að mæta ekki á verðlaunaafhendinguna. Ég fylgi því sem félagið segir mér að gera."
Vinícius talaði einnig um hversu mikið hann elskar lífið í Madríd og að hann getur ekki beðið eftir að gera nýjan samning við félagið. Núverandi samningur hans rennur út eftir rúmlega tvö ár.
Athugasemdir