Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 04. maí 2022 21:20
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Markvörður Keflavíkur með stórleik í sigri á Blikum
Samantha Leshnak Murphy átti ótrúlegan leik í Keflavík
Samantha Leshnak Murphy átti ótrúlegan leik í Keflavík
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Stjarnan náði í fyrsta sigur tímabilsins
Stjarnan náði í fyrsta sigur tímabilsins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samantha Leshnak Murphy, markvörður Keflavíkur, átti einn rosalegasta leik í minnum manna er liðið vann Breiðablik 1-0 á HS Orku-vellinum Bestu deildinni í Keflavík í kvöld en undir lok leiks varði hún vítaspyrnu og tryggði þannig liðinu sigur. Stjarnan vann þá KR nokkuð örugglega, 5-1.

Keflavík kom fullt sjálfstraust inn í leikinn eftir að hafa unnið KR 4-0 í fyrstu umferð Bestu deildarinnar.

Blikar sóttu án afláts í fyrri hálfleiknum og voru töluvert meira með boltann en þéttur varnarleikur Keflavíkur hélt stöðunni í 0-0 og þá var Samantha afar örugg í markinu. Karítas Tómasdóttir komst næst því að skora á 32. mínútu eftir frábæra sókn Blika en Samantha varði eins og köttur. Glæsileg varsla.

Mínútu síðar tóku Keflvíkingar óvænt forystuna eftir hornspyrnu en það var hin 17 ára gamla Amelía Rún Fjeldsted sem gerði markið, gegn gangi leiksins.

Samantha átti nokkrar fínar vörslur áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Blikar héldu áfram að sækja í síðari hálfleiknum og á 75. mínútu átti Samantha einhverja ótrúlegustu markvörslu deildarinnar.

„Þú hlýtur að vera að grínast!!!!!

Samantha með eina þá trufluðustu markvörslu sem ég hef séð. Anna Petryk alein á markteig vinstra meginn fær boltann og setur hann þéttingsfast á markið. Samantha virðis ekki eiga nokkurn einasta séns í boltann en hendir í eins og eitt gott handbolta X og slæmir hendi í boltann sem svífur rétt yfir slánna. Samantha fagnar vel og á alveg inni fyrir því!,"
sagði Sverrir Örn Einarsson í textalýsingu Fótbolta.net.

Þegar nokkrar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu Blikar vítaspyrnu. Natasha Moraa Anasi steig á punktinn en Samantha varði frábærlega frá henni og kórónaði frábæran leik sinn.

Lokatölur 1-0 fyrir Kelavík sem er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leikina en Blikar með þrjú stig.

Stjarnan skoraði fimm

Stjörnukonur unnu KR 5-1 á Samsung-vellinum og fagna nokkuð þægilegum sigri. Liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik en Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði strax á 4. mínútu leiksins áður en Gyða Kristín Ásbjörnsdóttir tvöfaldaði forystuna fimm mínútum síðar.

Alma Mathiesen gerði þriðja mark Stjörnunnar á 38. mínútu er hún stal boltanum af Margaux Marianne Chauvet áður en hún setti boltann í netið.

Hin unga og efnilega Ísabella Sara Tryggvadóttir minnkaði muninn fyrir KR undir lok fyrri hálfleiks og staðan 3-1 fyrir Stjörnuna í hálfleik.

Arna Dís Arnþórsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir bættu við tveimur mörkum í byrjun síðari hálfleiks.

KR-ingar reyndu að keyra á Stjörnuna eftir það en náðu ekki að koma boltanum í netið. Lokatölur 5-1 og Stjarnan nær í fyrsta sigur sinn í sumar en KR áfram án stiga.

Úrslit og markaskorarar:

Stjarnan 5 - 1 KR
1-0 Katrín Ásbjörnsdóttir ('4 )
2-0 Gyða Kristín Gunnarsdóttir ('9 )
3-0 Alma Mathiesen ('38 )
3-1 Ísabella Sara Tryggvadóttir ('44 )
4-1 Arna Dís Arnþórsdóttir ('48 )
5-1 Jasmín Erla Ingadóttir ('52 )
Lestu um leikinn

Keflavík 1 - 0 Breiðablik
1-0 Amelía Rún Fjeldsted ('33 )
1-0 Natasha Moraa Anasi ('94 , misnotað víti)
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner