Mikel Arteta svaraði spurningum fréttamanna eftir 2-0 tap Arsenal á útivelli gegn Newcastle í undanúrslitum enska deildabikarsins fyrr í kvöld.
Arsenal tapaði viðureigninni samanlagt 4-0 eftir að hafa einnig tapað fyrri leiknum á heimavelli fyrir mánuði síðan.
„Við erum að spila leik á þriggja daga fresti og við vissum að þetta yrði erfiður leikur í dag. Við höfðum fulla trú á því að við gætum unnið þennan leik og snúið stöðunni við en áður en við vissum vorum við búnir að missa þetta frá okkur," sagði Arteta eftir tapið.
„Það er erfitt að kyngja þessu tapi en við verðum að gera það. Við höfðum miklar væntingar til þessa leiks en það er ekkert sem við getum gert núna, við stóðum okkur ekki nógu vel á vellinum. Núna þurfum við að endurhlaða batteríin og undirbúa okkur fyrir næsta leik. Við verðum að gera betur.
„Mistök eru partur af því að spila fótbolta og við gerðum nokkur svoleiðis í kvöld. Við gerum vanalega ekki mikið af mistökum en í þessum leik gáfum við þeim alltof mikið pláss og litum ekki nógu vel út í vörninni."
Athugasemdir