Ólafur Jóhann Bergmann Steingrímsson hefur skrifað undir eins árs samning við Völsung og tekur því slaginn með liðinu í Lengjudeildinni í sumar.
Ólafur er 26 ára gamall og á að baki 104 leiki í deild- og bikar og skorað 10 mörk.
Hann lagði skóna á hilluna fyrir þremur árum vegna meiðsla, en tók upp skóna að nýju í haust og hefur æft með liðinu á undirbúningstímabilinu.
Völsungur greindi frá því í gær að hann væri nú búinn að gera samning út tímabilið og er því ágætis möguleiki á því að hann spili með yngri bróðir sínum, Andra Val, í sumar.
Þeir koma úr mikilli fótboltafjölskyldu en allir hafa skorað í mótsleik fyrir Völsung nema Andri sem er 16 ára gamall. Það gæti orðið af því í sumar, en hann spilaði með B-liði Völsungs í Kjarnafæðismótinu.
Flestir ættu að kannast við hina bræðurna. Hallgrímur Mar og Hrannar Björn eru báðir á mála hjá KA, Guðmundur Óli er þjálfari Magna á Grenivík og þá hefur Sveinbjörn lagt skóna á hilluna, en hann spilaði með Völsungi um árabil ásamt því að hafa leikið með Álftanesi, KFG og Kríu.
Athugasemdir