Breiðablik spilar í dag fyrsta leik hjá íslensku félagsliði í nýju Sambandsdeild UEFA.
Klukkan 17:00 verður flautað til leiks í Lúxemborg þar sem Breiðablik spilar fyrri leik sinn við Racing.
FH fær svo Sligo Rovers frá Írlandi í heimsókn á Kaplakrikavöll klukkan 18:00. Stjarnan mætir einnig írsku liði á heimavelli sínum; Bohemians er í heimsókn í Garðabæ klukkan 19:45.
Þetta er fyrsta tímabil Sambandsdeildarinnar, sem er ný keppni á vegum UEFA. Segja má að þetta sé C-deild Evrópukeppninnar.
Halldór Árnason, aðstoðarþjálfari Blika, var spurður út í andstæðing Breiðablik eftir sigur gegn Leikni í Pepsi Max-deildinni um síðustu helgi.
„Okkar styrkleiki er bara að vera við og vera besta útgáfan af sjálfum okkur. Við erum að fara spila við lið frá Lúxemborg. Við vitum kannski ekki mikið um þá eins og er. Þeir kláruðu deildina hjá sér í maí, skiptu um þjálfara og eru að spila æfingaleiki núna. Við reynum að afla okkur eins mikið af upplýsingum og við getum, en fókusinn verður bara á okkur sjálfa," sagði Halldór.
Kristinn Steindórsson, miðjumaður Blika, fékk einnig spurningu um leikinn sem framundan er.
„Þetta leggst mjög vel í mig. Það er alltaf gaman að spila í Evrópu og fara með strákunum í smá ferðalag. Maður hefur ekkert farið núna í eitt og hálft ár. Það verður stemning. Ég held ég hafi einhvern tímann farið þangað þegar ég var sex ára. Ég get ekki sagt að ég muni eftir því," sagði Kristinn en bæði viðtöl má sjá hér að neðan.
Sambandsdeild UEFA
17:00 Racing FC Union-Breiðablik (Stade Achille Hammerel)
18:00 FH-Sligo Rovers (Kaplakrikavöllur)
19:45 Stjarnan-Bohemian FC (Samsungvöllurinn)
Athugasemdir