Bukayo Saka fór af velli í seinni hálfleik í 3-0 sigri Arsenal gegn Real Madrid í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi.
Saka varð fyrir hnjaski og tók Mikel Arteta þjálfari hann af velli til að setja hann ekki í hættu á að meiðast aftur, en þessi stjörnuleikmaður Arsenal er aðeins nýlega búinn að jafna sig eftir erfið meiðsli.
„Bukayo Saka er ekki alvarlega meiddur, hann fékk spark í sig og getur verið með í næsta leik," sagði Arteta eftir sigurinn í gær og snéri sér svo að miðverðinum Jakub Kiwior sem fyllti í skarðið fyrir meiddan Gabriel og stóð sig vel.
„Við misstum einn af okkar bestu varnarmönnum í fjögurra mánaða meiðsli og svo kemur Jakub Kiwior inn í liðið og spilar svona ótrúlega vel. Þetta er ekki tilviljun."
Declan Rice var hetja Arsenal í gær þar sem hann skoraði tvö af þremur mörkum liðsins beint úr stórglæsilegum aukaspyrnum, með tólf mínútna millibili. Þetta er í fyrsta sinn sem Rice skorar beint úr aukaspyrnu á ferlinum.
„Ég hef skotið í vegginn alltof oft á ferlinum, loksins skora ég! Í fyrri spyrnunni þá ætlaði ég að gefa boltann fyrir markið en svo sá ég hvernig veggurinn var staðsettur og hvar Courtois stóð í markinu... svo ég lét bara vaða," sagði Rice í gær.
„Í seinna skiptið var ég kominn með sjálfstraustið til að skjóta sjálfur."
Athugasemdir