Real Madrid tapaði afar óvænt með þriggja marka mun á útivelli gegn Arsenal í gærkvöldi.
Liðin mættust í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og kljást aftur næsta miðvikudag á Santiago Bernabéu í Madríd.
„Við verðum að halda í trúna og eiga töfrakvöld í seinni leiknum. Það getur allt gerst í fótbolta, til dæmis Declan Rice að skora tvö aukaspyrnumörk þegar hann hefur aldrei áður skorað beint úr aukaspyrnu á ferlinum," sagði Carlo Ancelotti, þjálfari Madrídinga, eftir tapið og tóku stórstjörnurnar hans undir.
„Auðvitað getum við komið til baka og sigrað þessa viðureign. Við verðum að trúa til enda," sagði Kylian Mbappé, áður en Jude Bellingham tjáði sig.
„Arsenal hefði getað skorað meira, við vorum heppnir að sleppa með 3-0 tap. Við höfum engar afsakanir, við þurfum að líta í spegilinn. Við höfum lent í vandræðum áður á tímabilinu og alltaf tekist að yfirstíga þau."
Kantmaðurinn knái Vinícius Júnior sló á svipaða strengi: „Engar afsakanir, þetta var lélegur leikur og við verðum að bæta okkur fyrir seinni leikinn. Við höfum áður töfrað fram ótrúleg úrslit á heimavelli og við getum gert það aftur."
Raúl Asencio og Lucas Vázquez tjáðu sig einnig og sögðust vera hungraðir í endurkomusigur á Bernabéu.
Athugasemdir