Liverpool hefur sett sig í samband við fólk sem er nátengt Alexander Isak - Úlfarnir horfa til Jota
   sun 09. október 2022 15:09
Brynjar Ingi Erluson
England: West Ham tengir saman sigra - Þungu fargi létt af Palace
Gianluca Scamacca skoraði annað mark West Ham
Gianluca Scamacca skoraði annað mark West Ham
Mynd: EPA
Eberechi Eze skoraði sigurmark Palace
Eberechi Eze skoraði sigurmark Palace
Mynd: EPA
Michail Antonio skoraði þriðja mark West Ham
Michail Antonio skoraði þriðja mark West Ham
Mynd: EPA
Ítalski framherjinn Gianluca Scamacca skoraði annan deildarleikinn í röð er hann tryggði West Ham 3-1 sigur á Fulham í 10. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Crystal Palace vann þá sinn fyrsta leik síðan í ágúst er liðið lagði Leeds að velli, 2-1.

Eftir brösulega byrjun West Ham á tímabilinu hefur liðinu tekist að tengja saman tvo sigra.

Ekki byrjaði það þó vel því brasilíski sóknartengiliðurinn Andreas Pereira tók forystuna fyrir Fulham þegar fimm mínútu voru búnar af leiknum og það með algjöru þrumuskoti í þaknetið.

Daniel James átti laglegt skot sem fór af slánni og yfir markið stuttu síðar. Gianluca Scamacca kom sér því næst í gott skallafæri hinum megin á vellinum en Bernd Leno sá við honum.

Heimamenn fóru að pressa á Fulham og eftir nokkur álitleg færi kom tækifærið. Pereira, sem hafði komið Fulham yfir, braut þá klaufalega á Craig Dawson í teignum og vítaspyrna dæmd. Jarrod Bowen fór á punktinn og skoraði.

Í þeim síðari tókst Scamacca að koma West Ham yfir. Lucas Paqueta átti góða sendingu inn fyrir á Scamacca sem lyfti boltanum yfir Leno og í netið. Michail Antonio, sem kom inná fyrir Scamacca, gulltryggði síðan sigurinn undir lok leiks og lokatölur 3-1 fyrir West Ham sem er að vinna annan leik sinn í röð og það í fyrsta sinn á tímabilinu. West Ham er í 13. sæti með 10 stig en Fulham í 9. sæti með 11 stig.

Crystal Palace vann þá fyrsta leik sinn síðan í lok ágúst er liðið lagði Leeds United að velli, 2-1.

Það var Leeds sem byrjaði betur og komst yfir með marki frá Pascal Struijk á 10. mínútu. Brendan Aaronson keyrði framhjá þremur leikmönnum Palace áður en hann lét vaða á markið en boltinn hafnaði í stöng og til Struijk sem kláraði í netið.

Palace jafnaði metin eftir aukaspyrnu. Michael Olise tók aukaspyrnu á fjærstöng og þar var Odsonne Edouard mættur til að stanga boltann í netið. VAR skoðaði atvikið til að sjá hvort Edouard hafi verið rangstæður, en markið stóð og staðan 1-1.

Pressa heimamanna skilaði sér í síðari hálfleiknum. Eberechi Eze gerði sigurmarkið þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir undirbúning frá Wilfried Zaha.

Lokatölur 2-1 fyrir Palace sem er að vinna fyrsta leik sinn síðan 20. ágúst. Palace er í 15. sæti með 9 stig en Leeds sætinu ofar með jafnmörg stig, en betri markatölu.

Úrslit og markaskorarar:

West Ham 3 - 1 Fulham
0-1 Andreas Pereira ('5 )
1-1 Jarrod Bowen ('29 , víti)
2-1 Gianluca Scamacca ('62 )
3-1 Michail Antonio ('90 )

Crystal Palace 2 - 1 Leeds
0-1 Pascal Struijk ('10 )
1-1 Odsonne Edouard ('24 )
2-1 Eberechi Eze ('76 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner