Jürgen Klopp er á sínu sjöunda tímabili með Liverpool og hefur liðið farið óvenju illa af stað í haust.
Glöggir fótboltaáhugamenn bentu á að Klopp gengur alltaf illa á sjöunda ári, en hann var í sjö ár hjá Mainz og svo sjö ár hjá Dortmund áður en hann skipti yfir til Englands.
Á sjöunda árinu hjá Mainz var félagið komið aftur niður í B-deild og gekk illa. Á sjöunda árinu hjá Dortmund var liðið óvænt í fallbaráttu um jólin en endaði svo í sjöunda sæti og missti af Meistaradeildinni.
Klopp gefur þó lítið fyrir þessa sjöunda-árs kenningu.
„Aðstæðurnar voru allt öðruvísi þar en þær eru hér. Fyrst var það aldrei planað að vera í sama starfi í sjö ár og svo tapaði ég orkunni. Þetta er tvennt sem á ekki við um stöðuna núna," sagði Klopp. „Ég skil alveg samanburðinn en ef maður stoppar til að hugsa þá áttar maður sig á að þetta eru allt aðrar aðstæður.
„Það var fínt að vera hjá Dortmund en það varð þreytt að lokum að selja alla bestu leikmennina burt frá félaginu. Það var mjög erfitt starf, maður steig tvö skref afturábak í hverjum félagsskiptaglugga."