Það var nóg um að vera í efstu deild norska boltans í dag þar sem aðeins nokkrar umferðir eru eftir af tímabilinu.
Molde er svo gott sem búið að vinna Noregsmeistaratitilinn eftir leiki dagsins þar sem liðið er með 15 stiga forystu á Bodö/Glimt þegar fimm umferðir eru eftir.
Molde tryggði sér titilinn með stórsigri gegn Ham-Kam í dag en Björn Bergmann Sigurðarson var fjarri góðu gamni.
Bodö/Glimt er í öðru sæti en með bæði Rosenborg og Lilleström andandi ofan í hálsmálið á sér. Aðeins tvö af þessum þremur liðum geta komist í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
Alfons Sampsted lék allan leikinn í 4-1 sigri Glimt gegn Sandefjord í dag. Kristall Máni Ingason kom þá inn af bekknum í góðum sigri Rosenborg sem er í þriðja sæti, einu stigi eftir Alfons og félögum.
Kristall Máni fékk að spila síðustu tíu mínúturnar á heimavelli gegn Vålerenga en Brynjar Ingi Bjarnason var ónotaður varamaður í liði gestanna. Vålerenga situr eftir í fimmta sæti, fimm stigum frá Evrópusæti.
Lilleström er jafnt Rosenborg á stigum og kom Hólmbert Aron Friðjónsson inn af bekknum í sannfærandi sigri á útivelli gegn Viking.
Hólmbert Aron fékk að spila síðustu tíu mínúturnar í 0-3 sigri en Patrik Sigurður Gunnarsson var á milli stanga heimamanna. Viking siglir lygnan sjó um miðja deild eftir tapið.
Brynjólfur Darri Willumsson lék þá fyrstu 78 mínúturnar í jafntefli Kristiansund á útivelli gegn Odd á meðan Ari Leifsson gat ekki tekið þátt í tapi Strömsgodset vegna meiðsla.
Strömsgodset siglir lygnan sjó en Kristiansund virðist vera á leið niður, heilum átta stigum frá öruggu sæti.
Molde 5 - 0 Ham-Kam
Bodö/Glimt 4 - 1 Sandefjord
Rosenborg 3 - 0 Vålerenga
Viking 0 - 3 Lilleström
Odd 1 - 1 Kristiansund
Strömsgodset 1 - 2 Tromsö
Í B-deildinni vann Íslendingalið Sogndal stórsigur á fallbaráttuliði Stjordals Blink. Alejandro Diaz setti þrennu í 6-1 sigri og lék Valdimar Þór Ingimundarson fyrstu 67 mínúturnar.
Jónatan Ingi Jónsson fékk að spila síðustu tólf mínútur leiksins og var Hörður Ingi Gunnarsson ónotaður varamaður.
Toppbaráttulið Start tapaði þá óvænt gegn fallbaráttuliði Skeid og var um annan Íslendingaslag að ræða. Bjarni Mark Antonsson var í byrjunarliði Start sem lenti tveimur mörkum undir og tókst aldrei að jafna, en lokatölur urðu 3-2.
Hinn 18 ára gamli Pálmi Rafn Arinbjörnsson, sem er uppalinn hjá Wolves á Englandi, sat á varamannabekk Skeid.
Start er í harðri baráttu um sæti í efstu deild en þarf líklegast að fara umspilsleiðina eftir þetta tap í dag. Skeid er aftur á móti einu stigi frá öruggu sæti í deildinni þegar nokkrar umferðir eru eftir.
Að lokum vann Nardo stórsigur á Innstrandens í D-deildinni og er þar í þriðja sæti með 50 stig en getur ekki náð toppsætinu. Óttar Húni Magnússon er leikmaður Nardo.
Sogndal 6 - 1 Stjordals Blink
Skeid 3 - 2 Start
Innstrandens 1 - 5 Nardo