Samúel Kári Friðjónsson var á leið til Rheindorf Altach í Austurríki frá norska félaginu Viking. Þau skipti gengu ekki í gegn vegna botnlangatöku. Fjallað var fyrst um málið fyrir rúmum þremur vikum síðan.
Þá var enn smá möguleiki á því að Samúel færi til Austurríkis en nú er hann úr sögunni, í bili hið minnsta. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er ekki útilokað að hann fari til Austurríkis í sumar.
Rheindorf Altach er í botnbaráttu í austurrísku Bundesliga og vildi fá Samúel í sínar raðir til að hjálpa í baráttunni um að halda sér uppi.
Félagið þurfti að fá mann sem væri tilbúinn strax en þar sem Samúel fór í aðgerð þá var hann ekki rétti maðurinn fyrir félagið á þessum tímapunkti því hann er ekki enn farinn að æfa eftir aðgerðina.
Samúel er 25 ára gamall og er uppalinn í Keflavík. Hann hefur spilað erlendis frá árinu 2013. Hann var á sínum tíma hjá Reading og hefur einnig verið hjá Vålerenga og Paderborn. Hann á að baki átta A-landsleiki og samningur hans við Viking gildir út þetta ár.
Athugasemdir