Mainoo og Garnacho gætu verið seldir í sumar - Cunha hefur áhuga á að fara í stærra félag - Guardiola fúll út í Walker
   mán 11. september 2023 18:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Laugardalsvelli
Leið Orra Steins í byrjunarliðið: Markavél sem valdi Köben fram yfir Arsenal
Icelandair
Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, og sonur hans, Orri Steinn.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, og sonur hans, Orri Steinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir þrennu í Meistaradeildinni.
Eftir þrennu í Meistaradeildinni.
Mynd: FCK
Orri spilaði með Rasmus Höjlund, sóknarmanni Manchester United, í unglingaliðum FCK. Höjlund er einu ári eldri.
Orri spilaði með Rasmus Höjlund, sóknarmanni Manchester United, í unglingaliðum FCK. Höjlund er einu ári eldri.
Mynd: Getty Images
Orri er í A-landsliðshópnum í fyrsta sinn.
Orri er í A-landsliðshópnum í fyrsta sinn.
Mynd: KSÍ
Orri Steinn Óskarsson spilaði sinn fyrsta A-landsleik síðastliðið föstudagskvöld þegar hann kom inn á sem varamaður í hálfleik í 3-1 tapi gegn Lúxemborg. Í kvöld byrjar hann sinn fyrsta landsleik þegar Bosnía og Hersegóvína kemur í heimsókn á Laugardalsvöll.

Orri hefur alla burði til að komast í fremstu röð í heiminum en hann er gríðarlega efnilegur leikmaður. Hann er bara 19 ára gamall og það segir sitt að hann sé að byrja leiki fyrir FC Kaupmannahöfn, stærsta félag Norðurlanda, og íslenska landsliðið líka.

Skaust fram á sjónarsviðið þegar hann var 13 ára
Þegar maður leitar fyrst að Orra í fréttaleit Fótbolta.net þá kemur fram frétt frá því í ágúst fyrir fimm árum síðan, 2013, þegar hann skoraði tvennu fyrir Gróttu í 5-0 sigri gegn Hetti. Hann var þá 13 ára gamall. Orri fór í viðtal við Fótbolta.net eftir leikinn og sagði þá:

„Ég ætlaði að skora þriðja markið en því miður tókst það ekki. Tilfinningin eftir leik var ólýsanleg."

Orri kemur úr mikilli fótboltafjölskyldu. Faðir hans er Óskar Hrafn Þorvaldsson og systir hans, Emelía, er einn efnilegasti leikmaður sem Ísland á - líkt og Orri.

Óskar Hrafn var að þjálfa Gróttu þegar Orri fékk sín fyrstu tækifæri í meistaraflokki og það hjálpaði honum að fóta sig í meistaraflokknum. Hann hjálpaði Gróttu að komast upp úr 2. deild og skoraði svo eitt mark þegar Grótta vann Lengjudeildina árið eftir.

Í september, 2019, þegar Orri var 15 ára gamall, fór hann svo til Kaupmannahafnar, til stærsta félagsins á Norðurlöndum. Arsenal hafði á þeim tíma áhuga á því að kaupa hann en hann valdi rökrétta skrefið og fór til Danmerkur.

Sló met í akademíunni
Orri fór í unglingaakademíuna hjá FCK og það er óhætt að segja að hann hafi raðað inn mörkum þar. Hann var með Rasmus Höjlund, núverandi sóknarmanni Manchester United, í akademíunni og þeir spiluðu saman. Orri var með betra markahlutfall en maðurinn sem Man Utd borgaði 72 milljónir punda fyrir.

„Orri er búinn að standa sig mjög vel hérna, hann hættir bara ekki að skora," sagði Hákon Arnar Haraldsson, fyrrum leikmaður FCK, sem er að byrja með Orra gegn Bosníu í dag.

Árið 2021 bætti Orri met með U17 liði FCK þegar hann skoraði 29 mörk í sautján leikjum. Hann skoraði auk þess tíu mörk í tólf leikjum með U19 ára liði félagsins. U17 ára liðið varð danskur meistari. Jonas Wind, sem hefur verið hluti af danska landsliðinu, átti markametið í U17 deildinni áður en Orri sló það.

Í janúar 2022 spilaði Orri sinn fyrsta leik fyrir FCK er hann spilaði í æfingaleik gegn Hvidovre. Það tók hann 25 mínútur að skora í þeim leik.

Þrenna í Meistaradeildinni
Orri hefur verið að leggja mikið á sig að vinna sér inn hlutverk í aðalliði FCK og það má segja að honum hafi tekist það í upphafi þessa tímabils. Hann fór á láni til SönderjyskE á síðustu leiktíð og fékk þar dýrmæta reynslu. Í upphafi þessa tímabils er hann búinn að byrja fimm leiki í dönsku úrvalsdeildinni og skora eitt mark.

Hann hefur þá einnig leikið í Meistaradeildinni en hann byrjaði seinni leik FCK gegn Breiðabliki í forkeppni Mesitaradeildarinnar. Í þeim leik skoraði hann þrennu og vakti mikla athygli út um allan heim.

FCK komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og er þar í riðli með Bayern München og Manchester United.

„Ég er mjög spenntur að fara á Old Trafford og sýna hvað ég get. Markmiðið okkar er að vera ennþá í Evrópu eftir jól og svo viljum við geta strítt stóru liðunum á heimavellinum okkar í Parken, við höfum ekki tapað þar síðan 2018 eða 17," sagði Orri í samtali við Fótbolta.net á dögunum.

Minnir landsliðsþjálfarann á Dolberg
Orri, sem var aðalmaðurinn í U19 landsliðinu sem komst í lokakeppni EM í sumar, var í fyrsta sinn valinn í A-landsliðshópinn fyrir þetta verkefni. Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, er mjög spenntur fyrir leikmanninum.

„Ég hef séð marga leikmenn koma upp í gegnum árin, marga leikmenn sem eru góða í að klára færi. Hann minnir mig mikið á Kasper Dolberg þegar hann var yngri, þegar ég valdi hann í danska landsliðshópinn fyrir HM 2018," sagði Hareide.

Dolberg var á sínum tíma einn efnilegasti leikmaður í heimi en það var mikið talað um hann þegar hann kom upp hjá Ajax í Hollandi. Dolberg spilar í dag með Anderlecht í Belgíu.

„Orri er frábær markaskorari, frábær í að klára færi. Hann er líka góður í að tengja spilið saman. Við þurfum að koma þessum ungu leikmönnum inn í hópinn þar sem þeir læra mikið á því. Þess vegna er Orri í hópnum. Hann hefur spilað afar vel fyrir FC Kaupmannahöfn og er með mikil gæði. Hann mun alltaf vaxa og þróast."

Það verður virkilega spennandi að sjá Orra á Laugardalsvelli í kvöld en hann er klárlega eitt mesta efni Íslands og bara Evrópu.
Athugasemdir
banner
banner
banner