Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson hefur ekki átt óskabyrjun með velska liðinu Cardiff City, en hann kom til félagsins á láni frá Arsenal í ágúst.
Rúnar Alex var magnaður í liði Alanyaspor í tyrknesku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, en staða hans hjá Arsenal var óljós þegar leiktíðinni lauk.
Hann hóf undirbúningstímabilið með Arsenal og fór meðal annars í æfingaferð til Bandaríkjanna, en fékk ekki mínútur.
Það var svo um miðjan ágúst sem Rúnar fann sér nýtt félag og gerði þá eins árs lánssamning við Cardiff, sem spilar í ensku B-deildinni, en hvernig kom það til?
„Tyrkneskur þjálfari þar, sem var að þjálfa í Tyrklandi í fyrra, sem vildi fá mig. Ég átti mörg góð samtöl við hann og við klúbbinn. Mér leist vel á félagið, borgina og verkefnið; meginatriðin. Þetta tók smá tíma, það voru nokkur önnur lið inn í myndinni líka og ég fjölskyldan vorum að taka ákvörðun í sameiningu hvað væri best fyrir okkur. Við tókum okkur bara þann tíma sem við þurftum. Ég er ánægður með þetta,“ sagði Rúnar við Fótbolta.net.
Rúnar var snemma sumars orðaður við Anderlecht, var það nálægt því að gerast?
„Ekki svo ég viti, það var aldrei hringt í mig frá þeim. Það hefði verið mjög gaman að fara þangað, vera í Belgíu aftur; þekki borgina, þekki landið og þekki deildina. Það hefði verið gaman, en það kom aldrei neitt.“
Ömurlegt að hanga á bekknum
Rúnar Alex mætti brattur til Cardiff, í þeirri von um að fá að spila reglulega, en hann hefur aðeins fengið þrjú tækifæri í byrjunarliðinu.
Hann spilaði báða leiki liðsins í enska deildabikarnum, meðal annars í frábærum 3-1 sigri á Birmingham þar sem hann átti stórleik og fékk hann svo traustið í næsta deildarleik á eftir, en sá leikur tapaðist, 3-2, gegn Ipswich.
Tyrkneski þjálfarinn Erol Bulut kýs enska markvörðinn Jak Alnwick fram yfir Rúnar, en landsliðsmaðurinn fékk aftur tækifærið í 4-2 tapinu gegn Blackburn Rovers í deildabikarnum í lok september.
Eina í stöðunni fyrir Rúnar er að bíða þolinmóður eftir næsta tækifæri, en sjálfur segist hann ekki vita stöðu sína hjá félaginu í augnablikinu.
„Ég bara veit það ekki, ég fékk engar útskýringar af hverju ég var ekki að spila og fékk engar útskýringar af hverju ég var settur í liðið til að byrja með. Planið þegar ég skrifa undir var að spila alla leiki, en eins og í öllum liðum þá eru tveir góðir markmenn og hinn var búinn að standa sig hrikalega vel. Þegar ég fór með landsliðinu var hinn markmaðurinn að æfa, standa sig vel og þjálfarinn ákvað að spila honum aftur. Ég þarf bara að bíða þar til ég fæ sénsinn næst og þarf að grípa hann."
„Það er ömurlegt (að vera á bekknum), glatað. Sérstaklega þegar það er spilað svona mikið og æft lítið. Þá eru fáir sénsar til að sýna sig. En það þýðir ekkert að væla eða kvarta, það er bara að nýta þessa sénsa sem maður fær. Vonandi fæ ég að spila fyrr en síðar,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir