Fjórum leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni þar sem Chelsea mistókst að fara í toppsætið eftir að hafa aðeins náð markalausu jafntefli gegn Everton á Goodison Park. Þar með er ljóst að það er Liverpool sem verður yfir jólin á toppi deildarinnar.
Man Utd fékk Bournemouth í heimsókn á Old Trafford og maður hefði haldið að heimamenn væru minnugir leiks liðanna á sama velli í fyrra þegar gestirnir fóru með 0-3 sigur af hólmi. Þrátt fyrir það virtust heimamenn ekki í neinum hefndarhug og það virtist ekkert ætla að ganga hjá þeim.
Marcus Rashford var látinn vera utan hóps enn og aftur svo ekki gat hann bjargað þeim í dag þó hann hafi verið í æfingagallanum í stúkunni. Bournemouth komst yfir eftir tæplega hálftíma leik og enn einu sinni fékk Man Utd á sig mark úr föstu leikatriði.
Táningurinn Dean Hujsen skoraði markið en þetta var sjötti leikurinn i röð sem Man Utd lendir undir í leik. Justin Kluivert bætti öðru marki við úr vítaspyrnu eftir klukkutíma leik og tveimur mínútum síðar kom þriðja markið frá Antoine Semenyo með skoti í teignum. Sigurinn lyftir Bournemouth upp í fimmta sæti deildarinnar, uppfyrir Man City og Aston Villa. Stuðningsmenn Man Utd lýstu yfir óánægju sinni með því að stór fjöldi þeirra yfirgaf stúkuna áður en flautað var til leiksloka og þau sem eftir stóðu bauluðu á þá.
Wolves hafði fyrir daginn í dag verið í frjálsu falli og tapað fjórum leikjum í röð. Þeir heimsóttu Leicester City með nýjan stjóra í brúnni því Vitor Pereira tók við í vikunni og stýrði sínum fyrsta leik. Það virkaði heldur betur vel því þeir unnu leikinn nokkuð auðveldlega 0-3.
Souhampton tefldi ekki fram nýjum stjóra þrátt fyrir stjóraskipti í vikunni þegar Russell Martin var rekinn. Simon Rusk stýrði liðinu að þessu sinni en hann var fenginn til að bjarga málum þar til Ivan Juric tekur við. Juric var í stúkunni og mættur manna fyrstur þangað til að sjá leikinn við Fulham sem endaði með markalausu jafntefli.
Úrslit og markaskorarar dagsins hér að neðan en klukkan 16:30 hefst stórleikur dagsins þegar Tottenham tekur á móti Liverpool.
Everton 0 - 0 Chelsea
Fulham 0 - 0 Southampton
Leicester City 0 - 3 Wolves
0-1 Goncalo Guedes ('19 )
0-2 Rodrigo Gomes ('36 )
0-3 Matheus Cunha ('44 )
Manchester Utd 0 - 3 Bournemouth
0-1 Dean Huijsen ('29 )
0-2 Justin Kluivert ('61 , víti)
0-3 Antoine Semenyo ('63 )
Athugasemdir