
„Ég er algjörlega í skýjunum. Ég segi að hann sé að koma heim aftur," segir Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, í samtali við Fótbolta.net.
Grindavík tilkynnti í gær að Óskar Örn Hauksson, einn besti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi, væri mættur aftur til félagsins þar sem hann lék árunum 2004 til 2006.
Grindavík tilkynnti í gær að Óskar Örn Hauksson, einn besti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi, væri mættur aftur til félagsins þar sem hann lék árunum 2004 til 2006.
Óskar Örn, sem er 38 ára gamall, skipti í kjölfarið yfir í KR þar sem hann lék í fjölda ára áður en hann færði sig yfir til Stjörnunnar fyrir síðasta tímabil. Hann lék alls 57 leiki með Grindavík í deild og bikar á sínum tíma og skoraði 12 mörk fyrir félagið.
Baráttan um þjónustu hans fyrir næstu leiktíð var aðallega á milli Grindavíkur og Njarðvíkur.
„Það er æðislegt að fá hann aftur. Við erum búnir að eltast svolítið við hann. Það tókst að lokum að sannfæra hann. Þetta var Grindavík eða Njarðvík í hans huga. Hann tengdi betur fótboltalega séð í Grindavík. Ræturnar hans eru í Njarðvík. Þetta var lúmsk barátta og mjög erfið ákvörðun hjá honum tilfinningalega séð, en þetta hafðist að lokum og við Grindvíkingar erum algjörlega í skýjunum."
Hann lítur rosalega vel út
Óskar bætist við í hóp þeirra leikmanna sem hafa samið við félagið á síðustu vikum en það eru þeir Kristófer Konráðsson, Einar Karl Ingvarsson, Alexander Veigar Þórarinsson og Marko Vardic. Þá samdi Guðjón Pétur Lýðsson við félagið á seinni hluta síðustu leiktíð.
Haukur er virkilega ánægður með leikmennina sem hafa komið til félagsins. Nefnir hann sérstaklega að Alexander Veigar líti mjög vel út í endurkomu sinni í fótboltann.
„Hann lítur rosalega vel út, jafnvel betur en síðasta tímabilið sem hann spilaði með okkur," segir Haukur.
„Marko er líka mjög sterkur varnarmaður. Í mælingunum er hann langhraðastur í liðinu. Hann er líka gríðarlega góður skallamaður. Jankó sá um að sækja hann. Þetta lítur hrikalega vel út á blaði hjá okkur."
Einar Karl, Guðjón Pétur og Kristófer voru þá allir að spila í efstu deild á síðustu leiktíð. Helgi Sigurðsson er tekinn við þjálfun liðsins og markmiðið er skýrt; að fara upp í Bestu deildina. „Það skiptir máli hver er í brúnni og það er Helgi Sig. Hann er flottur gaur og flottur þjálfari. Hér eru allir líka að vinna sem einn"
Andri Rúnar líka að koma?
Heyrst hefur að Grindvíkingar séu ekki alveg hættir á leikmannamarkaðnum. Það gæti verið að önnur gömul hetja hjá félaginu muni fylgja á eftir Óskari. Andri Rúnar Bjarnason hefur verið nefndur í tengslum við félagið en hann er á förum frá ÍBV.
Sumarið 2017 jafnaði Andri markametið í efstu deild með því að skora 19 mörk í 22 leikjum fyrir Grindavík. Í kjölfarið lék hann með Helsingborg í Svíþjóð, Kaiserslautern í Þýskalandi og Esbjerg í Danmörku.
Þegar Haukur var spurður að því hvort Andri Rúnar væri líka að koma til Grindavíkur á nýjan leik, þá sagði hann: „Nafnið hans hefur komið upp, við getum orðað það þannig. Við erum með hugann við annað núna en það er aldrei að vita. Aldrei segja aldrei."
„Við ætlum allavega að gera atlögu að því að fara upp... það eru skýr markmið hjá okkur," segir Haukur en Grindavík hafnaði í sjötta sæti Lengjudeildarinnar í sumar.
Athugasemdir