Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   mið 13. júlí 2022 19:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Crewe
Hittu fjölskylduna í gær - Steini fór á róló
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dagný með syni sínum.
Dagný með syni sínum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næsti leikur er við Ítalíu á morgun.
Næsti leikur er við Ítalíu á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stelpurnar okkar fengu smá frí í gær til þess að hitta fjölskyldur sínar.

Þetta landsliðsverkefni er búið að vera lengi í gangi þar sem liðið okkar er að spila á Evrópumótinu.

Í gær fékk liðið kærkomið frí frá fótbolta- og hótellífinu. Var það nýtt til þess að hitta fjölskylduna; allavega var það þannig í tilfelli landsliðsþjálfarans Þorsteins Halldórssonar og miðjumannsins Dagnýjar Brynjarsdóttur.

Ég fór ekki í golf, ég tók fjölskylduna fram yfir það að fara í golf," sagði Þorsteinn á fréttamannafundi.

„Ég fór og hitti fjölskylduna mína. Það var bara gaman. Ég var strax dreginn út á róló og þetta var ágætis dagur."

Mikilvægt upp á andlega þáttinn
Stelpurnar eru á hóteli upp í sveit í Crewe þar sem liðið er með aðsetur á meðan EM stendur. Þær ná ekki að hitta fjölskyldur sínar mikið á meðan mótinu stendur.

Dagný segir að það hafi verið gott fyrir andlega þáttinn að fá að knúsa fjölskyldu sína aðeins.

„Endurheimtin hefur gengið vel. Við erum með frábæra sjúkraþjálfara, kokk sem við fáum nægan mat hjá, þjálfararnir leyfa okkur aðeins að sofa... þetta er búið að ganga rosalega vel og við erum allar bara held ég eins ferskar og við getum verið," sagði Dagný.

„Við hittum fjölskyldur okkar í gær og það er ótrúlega mikilvægt. Við þurfum að jafna okkur líkamlega og ekki síður andlega. Við fórum út tveimur vikum fyrir fyrsta leik og erum búnar að vera lengi í burtu. Það var gott að hitta fjölskylduna þó það var ekki ótrúlega lengi. Nokkrir klukkutímar eru betri en enginn."

Stemningin er góð
Það er mikilvægur leikur á móti Ítalíu á morgun. Stemningin í hópnum er góð og tilhlökkunin mikil að takast á við verkefnið sem er framundan.

„Stemningin er góð hjá okkur. Við leggjum áherslu á það eftir þennan fyrsta leik að þetta er enn í okkar höndum, algjörlega. Þetta snýst um okkar frammistöðu og okkar úrslit. Það er staða sem við viljum vera í því þá getum við bara einbeitt okkur á leikinn á morgun og allt í kringum hann. Hópurinn er vel undirbúinn held ég og í góðum gír. Það er mikil tilhlökkun að spila þennan leik á morgun," sagði Steini.

„Já, bara það sama og Steini segir. Við erum tilbúnar og hlökkum til. Það er búið að undirbúa okkur vel. Ef eitthvað er, þá er spennustigið örugglega betra. Við erum búnar að taka út mesta skrekkinn eftir fyrsta leikinn og við verðum klárar alveg frá fyrstu mínútu," sagði Dagný.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 16:00 og verður auðvitað í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner