Rashford, Isak, Trossard, Martinelli, Osimhen, Adeyemi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 13. desember 2022 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Saha ráðleggur Man Utd að sleppa því að kaupa Gakpo
Mynd: EPA
Cody Gakpo hefur mikið verið orðaður við Manchester United frá því í sumar. Gakpo er leikmaður PSV í Hollandi og hollenska landsliðsins. Hann hefur byrjað tímabilið í Hollandi virkilega vel og vakti athygli fyrir frammistöðu sína með landsliðinu á HM.

Einn sem er ekki seldur á sóknarmanninn er Louis Saha, fyrrum leikmaður United. Hann hvetur sitt fyrrum félag til þess að sleppa því að kaupa Gakpo.

PSV er opið fyrir því að selja kappann fyrir metfé. Hann er 23 ára og hefur komið að 30 mörkum í 24 leikjum með PSV. Þá skoraði hann þrjú mörk á HM. Erik ten Hag er í leit að sóknarmanni eftir að Cristiano Ronaldo yfirgaf félagið.

„Hann er mjög góður leikmaður, og átti mjög gott mót. Frammistaða hans á stóra sviðinu hefur sannað að hann geti spilað í úrvalsdeildinni, hann er svo snöggur og skorar mörk bæði fyrir félagslið og landslið," sagði Saha.

„Ég væri til í að sjá hann halda áfram að sýna svona frammistöður í 1-2 ár. Ég er ekki viss um að það eigi að kaupa hann núna og að hann muni passa inn í hlutina. Við höfum séð frábæra leikmenn eins og [Jadon] Sancho eiga í erfiðleikum með að finna taktinn í úrvalsdeildinni."

„Við vitum að Gakpo er gæðamikill leikmaður en er skrefið til United það rétta á þessari stundu fyrir hans þróun sem leikmaður,"
sagði Saha.

Gakpo hefur einnig verið orðaður við Real Madrid, Newcastle, Leeds, Barcelona og Liverpool.
Athugasemdir
banner
banner