Eins og fjallað var um í gær þá verður Åge Hareide næsti landsliðsþjálfari Íslands. Hann tekur við starfinu af Arnari Þór Viðarssyni sem var rekinn eftir fyrstu tvo leikina í undankeppni EM 2024.
Fótbolti.net greindi frá því fyrst allra miðla í gær að KSÍ væri búið að ræða við Hareide en VG í Noregi sagði svo í kjölfarið frá því að Norðmaðurinn væri að taka við starfinu.
Fótbolti.net greindi frá því fyrst allra miðla í gær að KSÍ væri búið að ræða við Hareide en VG í Noregi sagði svo í kjölfarið frá því að Norðmaðurinn væri að taka við starfinu.
Þessi 69 ára gamli þjálfari hefur stýrt stórliðum á Norðurlöndum á borð við Bröndby, Rosenborg og Malmö. Hann hefur þá stýrt Noregi og Danmörku í landsliðsfótboltanum.
Fótbolti.net hafði samband við danska fréttamanninn Ole Hoffskov, sem starfar fyrir Tipsbladet og spurði hann út í verðandi landsliðsþjálfara Íslands. Hoffskov þekkir Hareide vel eftir tíma hans með danska landsliðið.
„Age náði mjög góðum árangri með danska landsliðið," segir Hoffskov.
„Það var mjög erfitt að koma næst á eftir Morten Olsen sem var landsliðsþjálfari í 15 ár, en Age stóð sig frábærlega. Hann fór í gegnum 34 leiki án taps sem var algjörlega einstakt og nálægt heimsmeti. Hann er mjög pragmatískur þjálfari. Danska þjóðin vill sjá landsliðið flottan og skemmtilegan fótbolta, en það var ekki raunin undir stjórn Hareide. En hann náði í góð úrslit!"
„Age er ekki elskaður af öllum í Danmörku... Það er ekki nóg að vinna, þú þarft að líta vel á meðan þú gerir það."
Hann segir að Hareide hafi tekist að ná því besta út úr Christian Eriksen, stærstu stjörnu Danmerkur. „Það var eitt hans besta afrek að mínu mati, hversu vel Eriksen spilaði fyrir Danmörku. Áður en Hareide mætti til starfa þá var hann sjaldan góður með landsliðinu en Age fann besta hlutverkið fyrir Eriksen."
„Það er vert að minnast á það að Hareide var sleginn til riddara sem er einn mesti heiður sem þú getur fengið í Danmörku. Hann fékk það fyrir störf sín með landsliðinu en það er mjög sjaldgæft að útlendingar séu slegnir til riddara í landinu. Age var mjög tilfinningaríkur við athöfnina og felldi nokkur tár þegar hann fékk orðuna."
Snýst allt um úrslitin
Líkt og áður segir þá snýst allt um úrslitin hjá Hareide þó hann spili ekki endilega fallegan fótbolta. Það hljómar frábærlega fyrir íslenska landsliðið sem náði bestum árangri sínum með því að treysta á agaðan varnarleik, skyndisóknir og föst leikatriði.
„Þetta snýst allt um úrslitin hjá honum. Hann er ótrúlega góður í því að skipuleggja varnarleik. Það var ótrúlega erfitt að spila gegn danska landsliðinu þegar hann var þjálfari liðsins," segir Hoffskov.
„Utan vallar er hann mjög vingjarnlegur náungi og mjög brosmildur. Hann lítur svolítið út eins og afi manns. En hann er líka skapmikill og getur farið úr núll í hundrað á engum tíma. Heimskulegar spurningar frá fréttamönnum geta pirrað hann verulega mikið."
Mjög góður kostur fyrir Ísland
Hareide, sem er líkt og áður segir 69 ára, tilkynnti það árið 2020 þegar hann hætti með danska landsliðið að hann væri hættur þjálfun en hann hefur síðan þá þjálfað bæði Rosenborg og Malmö, tvö af stærstu félögum Norðurlanda.
„Ég trúi því að hann sé enn með ástríðu fyrir að þjálfa og ná árangri. Hann hefur talað við KSÍ um það áður en hann samþykkti að taka við íslenska landsliðinu.
„Ég tel að hann sé frábær kostur fyrir Ísland. Ég veit að íslenska landsliðið snýst mikið um frábæra liðsheild þar sem allir leggja mikið á sig fyrir liðið. Ég hef séð hversu sérstakt hugarfar Íslendingar eru með. Ég held að Age sé með nákvæmlega sama hugarfar. Því meira sem ég hugsa um þetta því meira trúi ég því að þetta sé hið fullkomna starf fyrir hann," sagði danski fréttamaðurinn að lokum.
Athugasemdir