
Karim Benzema gæti verið í franska landsliðshópnum í úrslitaleiknum á HM gegn Argentínu á sunnudaginn.
Frakkland er komið í úrslit eftir 2-0 sigur á Marokkó í undanúrslitum í kvöld.
Benzema var valinn í franska landsliðshópinn en hefur ekkert getað tekið þátt vegna meiðsla. Spænski miðillinn Marca greinir frá því að hann gæti snúið aftur í hópinn fyrir úrslitaleikinn.
Benzema var sendur aftur til Real Madrid eftir að hafa meiðst í aðdraganda HM en hann er byrjaður að æfa þar á fullu. Frakkland ákvað að skipta ekki Benzema út til að velja annan í hópinn svo ef hann er heill heilsu gæti hann tekið þátt í leiknum.
Það verður þó að teljast ólíklegt þar sem Olivier Giroud hefur komið gríðarlega sterkur inn í liðið í stað Benzema.
Athugasemdir