Ruben Amorim til Man City? - Alphonso Davies á óskalista Man Utd - Verðmiðinn á Antony - Barcelona á eftir tveimur leikmönnum Chelsea
   mið 16. október 2024 19:30
Brynjar Ingi Erluson
Guardiola um Baggio: Biðst forláts ef ég fer að gráta
Tvær goðsagnir
Tvær goðsagnir
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var á dögunum í viðtali í þættinum Che Tempo Che Fa, en þar fór hann um víðan völl og talaði meðal annars um tíma sinn hjá ítalska liðinu Brescia og hvernig það var að spila með Roberto Baggio.

Guardiola lék í ellefu ár með aðalliði Barcelona áður en hann ákvað að breyta til og fara til Ítalíu.

Hann samdi við Brescia árið 2001 og hitti þar goðsögnina, Roberto Baggio, en þeir Luca Toni, Daniele Bonera og Andrea Caracciolo voru einnig á mála hjá félaginu.

Baggio er talinn einn besti leikmaður í sögu Ítalíu. Baggio vann Ballon d'Or verðlaunin árið 1993 og er dýrkaður og dáður í heimalandinu, en var afar óheppinn með meiðsli.

„Ég biðst forláts ef ég fer að gráta, en ég verð mjög tilfinninganæmur þegar ég tala um Baggio,“ sagði Guardiola í þættinum.

„Ég fékk að kynnast honum þegar hann var að klára ferilinn og hné hans þakið örum. Hann gat varla hreyft sig en var samt bestur. Ég get rétt ímyndað mér hvernig hann var á bestu árunum.“

„Hann vann sér inn aðdáun allra í heiminum, og ekki bara út af hæfileikunum sem leikmaður, heldur fyrir allt hitt líka. Það er ekki til sá staður á Ítalíu þar sem Baggio er ekki elskaður. Það er bara ómögulegt,“
sagði Guardiola.

Þeir félagarnir spiluðu saman eitt tímabil áður en Guardiola fór til Roma, en þeir endurnýjuðu kynni sín aftur hjá Brescia árið 2003.

Baggio eða „Guðdómlega taglið“ hætti árið 2004 og lagði Guardiola þá skóna á hilluna tveimur árum síðar.
Athugasemdir
banner
banner