Ruben Amorim til Man City? - Alphonso Davies á óskalista Man Utd - Verðmiðinn á Antony - Barcelona á eftir tveimur leikmönnum Chelsea
   mið 16. október 2024 20:55
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeild kvenna: Barcelona rústaði Hammarby - Sædís spilaði í tapi gegn Arsenal
Barcelona kjöldró Hammarby á heimavelli
Barcelona kjöldró Hammarby á heimavelli
Mynd: EPA
Sædís Rún spilaði í tapi gegn Arsenal
Sædís Rún spilaði í tapi gegn Arsenal
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Evrópumeistarar Barcelona niðurlægðu Hammarby, 9-0, í 2. umferð í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Sædís Rún Heiðarsdóttir var þá í byrjunarliði Vålerenga sem tapaði fyrir Arsenal, 4-1, í Lundúnum.

Börsungar svöruðu ágætlega fyrir tapið gegn Manchester City í fyrstu umferðinni. Liðið valtaði yfir Hammarby á heimavelli sínum en staðan var 3-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Caroline Graham Hansen, Claudia Pina og Alexia Putellas skoruðu mörkin, en liðið hélt áfram að raða inn mörkum í þeim síðari.

Miðvörðurinn Maria Leon skoraði fjórða markið áður en Pina gerði annað mark sitt. Besta fótboltakona heims, Aitana Bonmati, lagði upp bæði mörkin.

Á síðustu tuttugu mínútum bættu þær Hansen, Ewa Pajor, Esmee Brugts og Fridolina Rolfö við fjórum mörkum áður en flautað var til leiksloka. Barcelona er í öðru sæti riðilsins með 3 stig, eins og Hammarby, sem er í þriðja sæti.

Landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir var þá í byrjunarliði Vålerenga sem tapaði fyrir Arsenal, 4-1, í Lundúnum.

Arsenal hefur verið að ganga í gegnum erfiðan kafla í byrjun tímabils, svo erfiðan að sænski þjálfarinn Jonas Eidevall sagði starfi sínu lausu.

Eidevall hætti í gær og tók Renee Slegers, aðstoðarþjálfari liðsins, tímabundið við, en hún byrjar vel.

Emily Fox og Caitlin Foord komu Arsenal í 2-0 áður en Olaug Tvedten minnkaði muninn.

Spænska landsliðskonan Mariona Caldentey og Alessia Russo gulltryggðu síðan sigur Arsenal undir lokin. Fyrsti sigur Arsenal í Meistaradeildinni á þessu tímabili staðreynd og liðið nú með 3 stig í öðru sæti en Vålerenga án stiga á botninum.

Sædís lék allan leikinn fyrir Vålerenga í leiknum.

Úrslit og markaskorarar:

Barcelona 9 - 0 Hammarby
1-0 Caroline Graham Hansen ('10 )
2-0 Claudia Pina ('24 )
3-0 Alexia Putellas ('45 )
4-0 Maria Leon ('53 )
5-0 Claudia Pina ('56 )
6-0 Ewa Pajor ('72 )
7-0 Caroline Graham Hansen ('75 )
8-0 Esmee Brugts ('87 )
9-0 Fridolina Rolfö ('90, víti )

Arsenal 4 - 1 Vålerenga
1-0 Emily Fox ('2 )
2-0 Caitlin Foord ('29 )
2-1 Olaug Tvedten ('35 )
3-1 Mariona Caldentey ('85 )
4-1 Alessia Russo ('90 )
Athugasemdir
banner
banner