Ruben Amorim til Man City? - Alphonso Davies á óskalista Man Utd - Verðmiðinn á Antony - Barcelona á eftir tveimur leikmönnum Chelsea
   mán 14. október 2024 12:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Heigullinn" Haaland eigi ekki að bera fyrirliðabandið
Erling Braut Haaland.
Erling Braut Haaland.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Haaland er harðlega gagnrýndur.
Haaland er harðlega gagnrýndur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Erling Haaland er harðlega gagnrýndur í norskum fjölmiðlum eftir 5-1 tap liðsins gegn Austurríki í gær.

Noregur heldur áfram að valda vonbrigðum þrátt fyrir að vera með frábæra leikmenn innanborðs. Karlalandslið Noregs hefur ekki komist á stórmót síðan árið 2000.

Í fjarveru Martin Ödegaard, miðjumanns Arsenal, er Erling Haaland, sóknarmaður Manchester City, með fyrirliðabandið. Haaland var augljóslega mjög pirraður eftir leikinn í gær og gekk fram hjá fjölmiðlamönnum sem reyndu að ná af honum tali. Hann neitaði að ræða við þá, þrátt fyrir að vera fyrirliði landsliðsins.

Leif Welhaven, fréttamaður Verdens Gang, skrifar í dag harðorðan pistil þar sem hann gagnrýnir framkomu Haaland í fyrirliðahlutverkinu.

„Þegar þú hefur samþykkt slíka stöðu, þá verður að fylgja henni ákveðinn þroski. Því miður fengum við ekki að sjá það eftir hrunið gegn Austurríki," skrifar Welhaven.

„Það er í mótlæti þar sem sannir leiðtogar koma virkilega fram á sjónarsviðið, það er þá þegar við þurfum einhvern til að axla ábyrgð. Á sjónum er ástæða fyrir því að skipstjórinn flýr ekki fyrst frá skipi í vandræðum. Þegar landslið hefur valdið fólki vonbrigðum í þeim mæli sem við upplifðum í Linz, þá ætti leikmaðurinn sem er tilnefndur sem leiðtogi hópsins að stíga fram þegar erfiðu spurningarnar koma."

„Heigullinn Haaland lét hins vegar liðsfélaga sína svara fyrir tapið. Á upphandleggnum hans er límmiði með orðinu 'virðing' en hann sýndi ekki af sér mikla virðingu eftir leikinn."

Welhaven segir að það séu fáir betri sóknarmenn til en Haaland en það séu flestir betri fyrirliðar en hann. Haaland eigi ekki að vera fyrirliði norska landsliðsins en hann baðst afsökunar á samfélagsmiðlum eftir leikinn; líklega bæði á frammistöðu liðsins og hegðun sinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner