„Það er pirrandi að tapa þessum leik," sagði Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði Íslands, eftir 2-4 tap gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 2 - 4 Tyrkland
Ísland komst í 1-0 og jafnaði svo í 2-2, en þessi leikur litaðist mjög mikið af skrítinni dómgæslu.
„Við eigum klárlega fyrir mér að fá víti og þeir að fá rautt í stöðunni 2-1. Það hefði getað breytt leiknum gríðarlega mikið. Ég sá þetta aftur og það er ótrúlegt að dómarinn fari ekki í skjáinn að kíkja á þetta. Hann fór tvisvar hjá þeim að kíkja. Hann gerir sig klárlega stærri til að verja á línu. Mér fannst það klárlega víti og rautt," sagði Jóhann Berg.
„Við jöfnum eftir það og svo fáum við klaufalegt mark á okkur. Það er erfitt að kyngja því."
Hvernig leið ykkur þegar dómarinn sagðist ekki ætla í skjáinn til að skoða þegar Merih Demiral bjargar á línu?
„Mér fannst það ótrúlegt og ég sagði það við hann. Hann fór tvisvar fyrir þá. Það er einhver í eyranu á honum að segja að hann þurfi ekki að fara í skjáinn. Fyrir mér er þetta klárlega víti og rautt spjald. Ég reyndi að tala við hann en þeir sögðu við hann í eyranu að þetta væri ekki víti."
Ísland spilaði á köflum vel í þessum glugga en eitt stig er bara niðurstaðan.
„Við vitum að það er ekki nógu gott og ekki það sem við viljum gera. Það er bara næsti gluggi þar sem við ætlum að gera betur. Við eigum frábæran möguleika gegn Svartfjallalandi og Wales. Við þurfum að læra af mistökunum og gera betur næst," sagði Jóhann Berg að lokum.
Athugasemdir