Ruben Amorim til Man City? - Alphonso Davies á óskalista Man Utd - Verðmiðinn á Antony - Barcelona á eftir tveimur leikmönnum Chelsea
   mið 16. október 2024 20:37
Brynjar Ingi Erluson
Pogba vill vera áfram hjá Juventus - „Ég er tapsár en enginn svindlari“
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Franski miðjumaðurinn Paul Pogba opnaði sig í viðtali við Sky Sports um bannið sem hann fékk fyrir að falla á lyfjaprófi en einnig ræddi hann framtíðina. Frakkinn segist vilja spila áfram með Juventus.

Pogba féll á lyfjaprófi eftir fyrsta deildarleik síðasta tímabils þar sem hann var með of hátt magn af testósteróni í líkamanum og var í kjölfarið dæmdur í fjögurra ára bann frá fótbolta.

Alþjóðlegi íþróttadómstóllinn,CAS, ákvað á dögunum að lækka refsingu hans niður í 18 mánuði og má hann því byrja að æfa í janúar og spila aftur í mars.

Leikmaðurinn hefur sagt frá því að hann hafi innbyrt drykk sem innihélt efnin, en hafði ekki hugmynd um að það væru efni í drykknum sem væru á bannlista lyfjaeftirlitsins.

„Ég tek fulla ábyrgð á því að hafa innbyrt þetta fæðubótarefni en ég athugaði þetta ekki þrisvar þó það hafi komið frá fagmanni. Ég tek því ef mér er refsað, en þetta hefðu aldrei átt að vera fjögur ár. Ég sætti mig við tólf mánuði,“ sagði Pogba við Sky.

Pogba segist alltaf hafa farið eftir reglunum. „Eftir að allt þetta gerðist var fólk að segja: 'Við þekkjum Paul, hann myndi aldrei taka þetta og ef hann gerði það þá vissi hann ekki af þessu og þetta var ekki gert með einbeittum brotavilja'. Það er sannleikurinn. Ég er heiðarleg manneskja og myndi þá bara viðurkenna það.“

„Ég er ekki svindlari. Ég er manneskja sem elskar íþróttina, leikinn og myndi aldrei gera þetta viljandi. Ég vil vinna og það á heiðarlegan hátt. Fólk veit það. Ég er mjög tapsár, en ég er ekki svindlari,“
sagði Pogba.

Mikil umræða hefur verið um framtíð hans. Erlendir fjölmiðlar halda því fram að hann ætli sér að rifta samningi sínum hjá Juventus og fara til Frakklands, en hann segir það ekki rétt.

„Ég væri bara til í að komast aftur á völlinn, hvaða völl sem er í raun. Auðvitað væri ég til að gera það með Juventus því ég vil byrja að æfa aftur með liðsfélgöunum, Það er erfitt að vera einn að senda á sjálfan þig og nota vegginn sem batta. Aðalmarkmiðið núna er að æfa, komast í form, komast á völlinn og gera það sem ég elska að gera.“

„Ég er tilbúinn að taka á mig launalækkun til að vera áfram hjá Juventus. Ég mun tala við Thiago Motta, því ég vil sýna fram á að ég geti aftur orðið frábær fótboltamaður,“
sagði hann enn fremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner