Ruben Amorim til Man City? - Alphonso Davies á óskalista Man Utd - Verðmiðinn á Antony - Barcelona á eftir tveimur leikmönnum Chelsea
banner
   mán 14. október 2024 23:05
Sverrir Örn Einarsson
„Hvernig getum við spilað fótbolta ef við vitum ekki hvað er hvað?"
Icelandair
Age Hareide í leiknum í kvöld.
Age Hareide í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Damian Sylwestrzak var ekki vinsæll á Laugardalsvelli í kvöld.
Damian Sylwestrzak var ekki vinsæll á Laugardalsvelli í kvöld.
Mynd: Getty Images
VAR og pólski dómarinn Damian Sylwestrzak voru í sviðsljósinu er Ísland beið 4-2 lægri hlut gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í kvöld. Tyrkir fengu tvær vítaspyrnur í leiknum eftir skoðun VAR sem mat svo að leikmenn Íslands hefðu gerst sekir um hendi innan eigin vítateigs. Annað var þó upp á tengingnum þegar Merih Demiral varnarmaður Tyrklands virstist verja boltann á marklínu með hendi og koma í veg fyrir mark. VAR taldi ekki tilefni til að grípa inn í á því augnabliki leikmönnum og þjálfurum Íslands til lítillar gleði,

Age Hareide þjálfari Íslands sat fyrir svörum á fréttamannafundi að leik loknum og ræddi þar meðal annars dómgæsluna og VAR.

Lestu um leikinn: Ísland 2 -  4 Tyrkland

„Atvikið með hendi á marklínu. Dómarinn skoðar það ekki eða VAR herbergið segir honum ekki að kíkja nánar á það. Ég ræddi við dómarann um það þar sem það er mjög skrýtið. Við sjáum á okkar skjá að hann er með hendina úti og ver boltann á marklínu og ég bara get ekki skilið þetta. Þeir verða þá að gera eitthvað með þessa reglu um hendi . Hvernig getum við spilað fótbolta ef við vitum ekki hvað er hvað? Stunduim er hendi víti en stundum ekki. Dómarinn bara verður að skoða þetta og þetta er ekki rétt í mínum huga.“

Age var líka minnugur þess að þetta er ekki í fyrsta sinn sem honum finnst VAR hafa leikið lið Íslands grátt frá því að hann tók við liðinu.

„Það er hreyfing í Noregi og Svíþjóð gegn notkun VAR. Svíar vilja það ekki og í Noregi vilja menn losna við það. Ég get vel skilið þau sjónarmið þar sem í kvöld t.d er ekkert samræmi milli þess hvað er skoðað og hvað ekki. Í fyrri leikjum eins og gegn Portúgal eða Slóvakíu eru atvik þar sem dómari skoðar ekki heildarmyndina eða aðdraganda atviks sem kostar okkur.“

Age var líka ósáttur með þriðja mark Tyrkja sem Arda Guler skoraði eftir að Kerem Akturkoglu vann boltann af Hákoni Rafni Valdimarssyni markverði Íslands. Age vildi meina að um brot væri að ræða og að Hákon og liðið hefði átt að mótmæla meira.

„Já það hefði hann átt að gera. Ef þetta hefði verið úti á velli væri þetta bara klár aukaspyrna. Hann kemur í tæklinguna að aftan og fer bæði í mann og bolta. Frá mér séð er þetta aukaspyrna. En þetta er ákvörðun dómara leiksins og Hákon hefði átt að vera búinn að þruma boltanum til Færeyja áður en að þessu kom. “
Athugasemdir
banner
banner