Ruben Amorim til Man City? - Alphonso Davies á óskalista Man Utd - Verðmiðinn á Antony - Barcelona á eftir tveimur leikmönnum Chelsea
banner
   mið 16. október 2024 19:49
Brynjar Ingi Erluson
Mbappe fær stuðning frá Real Madrid
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Spænska félagið Real Madrid styður heilshugar við bakið á franska sóknarmanninum Kylian Mbappe en hann er grunaður um að hafa nauðgað konu í Stokkhólmi í síðustu viku.

Mbappe var ekki í landsliðshópnum hjá Frökkum í þessum mánuði vegna meiðsla og nýtti því frídaga sína í Stokkhólmi í Svíþjóð.

Hann var gagnrýndur fyrir áhugaleysi gagnvart franska landsliðinu en hann sást á skemmtistað í Stokkhólmi sama kvöld og Frakkland spilaði við Ísrael.

Mbappe snéri aftur til æfinga hjá Real Madrid um helgina en á sama tíma birti Aftonbladet grein um að konu hafi verið nauðgað á hótelinu sem Mbappe dvaldi á.

Ekki var ljóst í fyrstu hvort Mbappe hafi verið viðriðinn það mál en lögfræðingur hans staðfesti í dag við RMC Sport að hann sé einn af þeim sem eru grunaðir um að hafa brotið á konunni.

Franski leikmaðurinn hefur sjálfur kallað þetta falsfréttir og að tímasetningin á fréttinni sé engin tilviljun, en hann er í miðjum málaferlum við Paris Saint-Germain vegna vangoldinna launa.

Eftir að fréttin um Mbappe var birt ákvað Real Madrid að taka Mbappe úr auglýsingum, væntanlega til þess að vernda vörumerkið, en AFP segir félagið samt standa þétt við bakið á honum og er sammála Mbappe um að þetta séu falsfréttir.

Marie Alix Canu-Bernard, lögfræðingur Mbappe, segir leikmanninn rólegan yfir þessum ásökunum.

„Eina sem ég get sagt er að hann hefur ekkert til að skammast sín fyrir,“ sagði hún í viðtali við BFMTV.

Það hefur þá komið fram að Mbappe sé alltaf umkringdur fólki og því ómögulegt fyrir hann að gera eitthvað af sér.

Leikmaðurinn og teymi hans ætla þá í mál við Aftonbladet en sænska blaðið telur ekki að það hafi brotið af sér með því að nafngreina hann í fréttinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner