Landsliðsmaður Úsbekistan orðaður við Man City - Liverpool hafnar tilboðum í Doak - Cunha til Arsenal?
   fim 17. október 2024 14:38
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Mín Skoðun | Dr. Football 
„Held ég geti fullyrt að þetta sé stærsta sala Vals í sögunni"
Garðar skoraði þrennu gegn ÍBV.
Garðar skoraði þrennu gegn ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Jón Steinarr
Börkur Edvardsson.
Börkur Edvardsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Börkur Edvardsson er að hætta sem formaður knattspyrnudeildar Vals en hann hefur verið í stjórn deildarinnar í rúmlega tvo áratugi. Hann var gestur í tveimur hlaðvarpsþáttum þar sem hann fer yfir tíma sinn hjá Val. Eitt af því sem hann ræðir er salan á Garðari Jóhannssyni til Fredrikstad í Noregi.

Valur keypti Garðar frá KR sumarið 2006 og byrjaði hann strax að skora fyrir Val. Hann skoraði í bikarleik gegn Víkingi og í fyrsta deildarleik á móti ÍBV, alls fjögur mörk í fyrstu tveimur leikjunum hjá nýju félagi.

„Ég held að stærsta sala Vals fyrr og síðar hafi verið Garðar Jó, Stjörnumaður sem við fengum frá KR. Við spiluðum á Laugardalsvelli og hann skoraði þrjú mörk á stuttum tíma [34 mínútum]. Það kom bara símtal eftir leikinn og hann var seldur. Hann var ekkert kornungur þá, en ekkert gamall. Ég held ég geti fullyrt að þetta sé stærsta sala Vals í sögunni," sagði Börkur við Valtý Björn í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun.

Garðar var þarna 26 ára gamall og fjallaði Fótbolti.net um það þremur vikum eftir leikinn gegn ÍBV að hann væri á leið til Noregs. Hann hins vegar gat ekki skipt strax til Fredrikstad þar sem hann hafði spilað með tveimur liðum á tólf mánaða tímabili og þurti því að bíða eftir næsta félagaskiptaglugga. Alls lék Garðar sex deildarleiki með Val sumarið 2006 og skoraði fjögur mörk. Hann lék með Fredrikstad tímabilin 2007-2009 og hélt í kjölfarið til Hansa Rostock.

Á Wikipedia er sagt að Fredrikstad hafi greitt tvær milljónir norskra króna fyrir Garðar og sagt að Valur hafi einungis greitt KR 100 þúsund norskar krónur fyrir hann mánuði áður. Þessar upphæðir eru óstaðfestar.

„Ég viðurkenni að salan á Garðari er sú óvæntasta. Hann var búinn að vera mikið meiddur, bras á honum, og við kaupum hann í Val af KR, sem var ekki algengt í þá daga. Þáverandi íþróttastjóri hjá Fredrikstad sendi mér tölvupóst og bauð tölu í Garðar," sagði Börkur við Hjörvar Hafliðason í Dr. Football.. Valsmenn höfnuðu tilboði Fredrikstad en fengu gagntilboð. „Það kom önnur tala til baka og ég sagði að þetta væri eitthvað skrítið. Þá benti einn töluglöggur maður í stjórninni mér á að þetta væru evrur, ég hélt þetta væru norskar krónur," sagði Börkur og hló. Í kjölfarið var svo þessu tilboði tekið.

Garðar er framherji sem uppalinn er hjá Stjörnunni. Hann lék einnig með KR, Val, Fredrikstad, Hansa Rostock, Strömsgodset, Fylki og KFG á sínum ferli. Hann skoraði tvö mörk í átta A-landsleikjum.

Í frétt Fótbolta.net í ágúst 2006 segir að Garðar sé fimmti leikmaðurinn sem Valur hefði selt á því ári. „Fyrst fór Bjarni Ólafur Eiríksson til Silkeborg, þá fór Garðar Gunnlaugsson til Norrköping, svo Sigþór Júlíusson til KR og Ari Freyr Skúlason til Häcken."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner