Efstir á lista ef Guardiola hættir - Alexander-Arnold á leið til Real Madrid - Barcelona hafnaði risatilboði í Yamal - Ten Hag vill De Jong í janúar
   fös 18. október 2024 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Eyþór Wöhler: Þetta pirrar einhverja og ég skil það fullkomlega
Eyþór Wöhler.
Eyþór Wöhler.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyþór og Kristall Máni.
Eyþór og Kristall Máni.
Mynd: HubbaBubba
Eyþór Aron Wöhler, meðlimur í tónlistartvíeykinu HúbbaBúbba, hefur verið gagnrýndur fyrir verk sín utan vallar á þessu tímabili. Eyþór, sem er leikmaður KR, hefur verið mjög sýnilegur á samfélagsmiðlum á meðan lítið hefur gengið hjá KR og hann verið í takmörkuðu hlutverki í liðinu eftir að hafa verið keyptur frá Breiðabliki í vor.

Hann var að gefa út plötu og var í dag gestur í hlaðvarpsþættinum Dr. Football. Þáttarstjórnandinn Hjörvar Hafliðason spurði hann út í gagnrýnina.

„Þetta pirrar einhverja og ég skil það alveg fullkomlega. Það er bara að forgangsröðunin sé rétt, og hún hefur verið það, að fótboltinn sé númer eitt. Eins og staðan er í dag þá get ég ekki lifað á fótboltanum einum. Sumir eru í skrifstofuvinnu en ég er í óhefðbundinni vinnu með fótboltann. Mér finnst þetta virka vel," sagði Eyþór.

Hann fékk mikla gagnrýni þegar hann var auglýstur sem eitt af atriðunum á upphitunarviðburði Víkinga fyrir bikarúrslitaleikinn. Skömmu síðar var auglýsingunni breytt.

„Ég bara hætti við þetta sjálfur. Það var leikur hjá KR daginn eftir og það átti ekki við að spila þarna. Þetta var bara leyst þannig."

„Umræðan væri náttúrulega önnur ef við værum í efri helming Bestu deildarinnar. Það er mjög auðvelt að grípa í þetta af því tímabilið hefur ekki verið nógu gott."

„Ég reyni að passa mig að vera ekki að setja inn hluti eftir tapleik."


Í tvíeykinu er einnig Kristall Máni Ingason sem er leikmaður SönderjyskE í Danmörku.

Eyþór er uppalinn í Aftureldingu sem verður í Bestu deildinni á næsta tímabili, í fyrsta sinn í sögunni. Hann hefur verið orðaður við heimkomu í Mosfellsbæinn.

„Ég er samningsbundinn KR næstu tvö ár, það væri gaman að spila með þeim einn daginn, en ég er með samning við KR núna," sagði Eyþór.

Hann er 22 ára sóknarmaður sem hefur skorað tvö mörk í deildinni með KR og eitt í bikarnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner