Real Madrid setur Alexander-Arnold í forgang - Barella orðaður við mörg félög - Tekur Montella við af Ten Hag? - Liverpool horfir á varnarmann Sevilla
   fim 17. október 2024 16:22
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Mín Skoðun 
Börkur um brottrekstur Arnars: Var ekkert svigrúm til að gera þetta á annan hátt
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Börkur Edvardsson.
Börkur Edvardsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Grétarsson var rekinn sem þjálfari Vals í byrjun ágúst eftir óviðunandi gengi liðsins þar á undan. Tilkynnt var um brottreksturinn eftir tap Vals gegn St Mirren í Skotlandi í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Tímasetningin var talsvert gagnrýnd, tíðindin bárust fljótlega eftir leikinn á fimmtudagskvöldi. Strax var greint frá því að Srdjan Tufegdzic, Túfa, myndi taka við af Arnari.

Börkur Edvardsson, fráfarandi formaður Vals, ræddi um ákvörðunina í viðtali við Valtý Björn í hlaðvarpsþættinum Mín Skoðun.

Hann segir að fyrir leikinn gegn St Mirren hefði verið búið að taka ákvörðun um að láta Arnar fara.

„Það var búið að taka ákvörðun um þetta áður en við fórum út. Við vorum ef ég man rétt að fara spila leik í deildinni nokkrum dögum seinna (gegn KA). Þetta var rosalega erfiður tímapunktur og tímasetning með þennan Evrópuleik. Eins og gengur og gerist þegar lið fara í Evrópukeppni, þá þurfa þau yfirleitt að ferðast í nokkrum hollum út og heim. Arnar var væntanlegur, minnir mig, heim frá Skotlandi seint um kvöld daginn eftir leik. Það var einfaldlega ekkert svigrúm, enginn tími, til að gera þetta á annan hátt, því miður. Því sem fór og við tókum þessa ákvörðun. Nýr þjálfari þurfti að stíga inn og hafa einhverja daga til að tala við hópinn og kynna einhverjar áherslubreytingar. Hvenær er góður tími að segja upp starfsmanni eða samningi? Það eru allir tímar hálfvonlausir í það."

„Það er erfitt að gera þetta og þetta tók þungt. Ég og Addi vorum fínir félagar, náðum vel saman og töluðum saman oft á dag. Mér líkar mjög vel við hann, en maður verður að skilja þetta persónulega aðeins frá, því þetta er fótboltalið og snýst um árangur. Þetta er ekki tekið í einhverjum flýti eða einhverjum pirringi, bara alls ekki. Ég held að við höfum reynt að standa eins faglega að þessu og hægt er, miðað við aðstæður og þá tímapressu sem var á okkur. Addi skilaði flottu starfi hjá Val og við kunnum honum miklar þakkir fyrir. Ég veit að hann mætir aftur og mun gera vel, enda drengur góður,"
sagði Börkur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner