Real Madrid setur Alexander-Arnold í forgang - Barella orðaður við mörg félög - Tekur Montella við af Ten Hag? - Liverpool horfir á varnarmann Sevilla
   fim 17. október 2024 11:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þrír Íslendingar sem félög í ensku úrvalsdeildinni eiga að kaupa
Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar Haraldsson.
Hákon Arnar Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cole Campbell.
Cole Campbell.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tom Collomosse, sérfræðingur breska dagblaðsins Daily Mail í evrópskum fótbolta, hefur tekið saman lista yfir 20 leikmenn frá Skandinavíu sem eru tilbúnir að taka skrefið í ensku úrvalsdeildina, sterkustu deild í heimi.

Á listann komast þrír íslenskir leikmenn sem er virkilega skemmtilegt að sjá.

Það er í fyrsta lagi Hákon Arnar Haraldsson, leikmaður Lille í Frakklandi. Hákon var í gær orðaður við bæði Crystal Palace og Tottenham, en þessi tvö félög eru sögð fylgjast náið með hans framgangi.

„Hann var maður leiksins þegar Ísland vann 1-0 sigur á Wembley í júní síðastliðnum. Haraldsson átti flott fyrsta tímabil í Frakklandi og fær núna að spreyta sig í Meistaradeildinni," segir Collomosse og heldur áfram:

„Hann spilar í dag sem tía en gæti á endanum spilað aftar á vellinum eins og Andrea Pirlo eða Luka Modric gerðu. Hann er lítill og léttur og gæti það spilað gegn honum í ensku úrvalsdeildinni, en það sama var sagt um Modric og Christian Eriksen líka."

Collomosse nefnir mögulega áfangastaði fyrir leikmennina, lið sem þeir gætu passað vel inn í. Fyrir Hákon nefnir hann Brentford, Fulham og Brighton.

Næstur á listanum er Orri Steinn Óskarsson sem gekk í raðir Real Sociedad á metfé síðastliðið sumar. Í greininni er tekið fram að hann hafi verið hærra skrifaður en Rasmus Höjlund, sóknarmaður Manchester United, í akademíu FC Kaupmannahafnar.

„Hann hefur byrjað hægt á Spáni en það eru engar efasemdir um það hversu langt hann getur náð. Hann er klassísk nía, mikill íþróttamaður og einnig mjög gáfaður," er sagt um Orra.

Það eru engir smá áfangastaðir nefndir fyrir hann, en Orri var auðvitað orðaður við Englandsmeistara Manchester City áður en hann fór til Spánar. City er nefnt fyrir hann í þessari grein og er einnig talað um Newcastle og Arsenal. Það er ekkert annað.

Að lokum er það Cole Campbell, sem hefur reyndar ákveðið að spila fyrir bandaríska landsliðið frekar en það íslenska. Cole á íslenska móður en bandarískan föður. Hann spilaði fyrir yngri landslið Íslands en ætlar að spila fyrir Bandaríkin í framtíðinni.

Hann er afar efnilegur sóknarsinnaður leikmaður sem er á mála hjá Borussia Dortmund í Þýskalandi.

„Campbell á eftir að spila fyrir aðallið þýska félagsins en hann var nýverið á bekknum og hans tækifæri mun koma," segir í greininni en Aston Villa, Brentford og Chelsea eru nefnd fyrir hann.

Listann má í heild sinni skoða hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner