Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
   mið 19. febrúar 2025 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hvaða númer fær Gylfi hjá Víkingum?
Gylfi var númer 23 hjá Val.
Gylfi var númer 23 hjá Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi hefur nánast alltaf verið númer 10 með landsliðinu.
Gylfi hefur nánast alltaf verið númer 10 með landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Enn er ekki ljóst hvaða númer Gylfi Þór Sigurðsson fær hjá Víkingum, það er ekki ákveðið.

Gylfi gekk í raðir Víkinga frá Val í gær en kaupverðið er um 20 milljónir króna sem gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu íslenska fótboltans.

Það er mikið umtal í kringum þessi skipti Gylfa og er eftirvænting fyrir því að sjá hann í búningi Víkings. Eflaust ætla einhverjir að kaupa sér treyju með nafni hans á bakinu, en enn er ekki ákveðið hvaða númer hann mun fá.

Þetta eru númerin sem Gylfi hefur verið með á ferli sínum:
Shrewsbury Town - 29
Crewe Alexandra - 38
Reading - 25
Reading - 8
Hoffenheim - 11
Swansea - 42
Tottenham - 22
Swansea - 23
Everton - 18
Everton - 10
Lyngby - 18
Valur - 23

Í landsliðinu hefur Gylfi nánast alltaf verið með 10 á bakinu en hann hefur einnig verið með 20 og 16 á bakinu í landsliðinu og í yngri landsliðunum var hann númer 6, 16 og 18.

Númer 18 líklegast?
Hjá Víkingum er Pablo Punyed númer 10 og Nikolaj Hansen númer 23. Það eru leikmenn sem hafa verið í risastóru hlutverki fyrir félagið síðustu ár. Adam Ægir Pálsson fórnaði númer 23 hjá Val þegar Gylfi kom þangað en það er spurning hvort annað hvort Pablo eða Nikolaj séu tilbúnir í það sama.

Þessi tvö númer eru frátekin og er næsta númer þá mögulega 18 en Gylfi var með það númer á bakinu hjá bæði Everton og Lyngby, ásamt því að leika með það í yngri landsliðum Íslands. Óskar Örn Hauksson var með það númer í fyrra hjá Víkingum en hann er ekki lengur hjá félaginu.

Af öðrum númerum sem Gylfi hefur leikið með á ferlinum þá eru 29, 38 og 42 laus hjá Víkingum þessa stundina miðað við leikmannalista félagsins á vef UEFA.
Athugasemdir
banner
banner