Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
banner
   mið 19. febrúar 2025 16:21
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Vel heppnuð ferð hjá feðgunum á kunnuglegar slóðir - „Viðurkenning fyrir gott ár"
Mynd: Aðsend
Mynd af Gabríel á heimavelli Norrköping frá því í október og svo ein í treyju Norrköping fyrir rúmum áratug síðan.
Mynd af Gabríel á heimavelli Norrköping frá því í október og svo ein í treyju Norrköping fyrir rúmum áratug síðan.
Mynd: Aðsend/Samsett
Í haust fór Gabríel Snær Gunnarsson á reynslu til sænska félagsins Norrköping. Gabríel Snær er leikmaður ÍA og er sonur Eyjamannsins Gunnars Heiðars Þorvaldssonar.

Gunnar Heiðar fór með syni sínum til Svíþjóðar en hann lék með Norrköping á árunum 2011-2013. Samkvæmt Transfermarkt skoraði hann 34 mörk og lagði upp 11 í 74 leikjum með Norköping.

Norrköping er mikið Íslendingafélag; Magni Fannberg er íþróttastjóri, Ari Freyr Skúlason er í þjálfarateyminu, Arnór Ingvi Traustason er lykilmaður í liðinu, Ísak Andri Sigurgeirsson er á sínu öðru ári hjá félaginu og Jónatan Guðni Arnarsson gekk í raðir félagsins í vetur.

Gunnar Heiðar ræddi við Fótbolta.net á dögunum um ferðina til Svíþjóðar.

„Það var virkilega æðislegt að kíkja á gamla félagið, þetta var virkilega skemmtileg ferð. Ég þekki helminginn af fólkinu sem er að vinna þarna frá því ég var úti. Það var virkilega gaman að koma aftur til Norrköping þar sem ég átti mjög góðan tíma, og ekki bara ég, heldur fjölskyldan líka. Þetta var eitthvað sem við vildum prófa og peyinn er að taka sín fyrstu skref í meistaraflokksfótbolta, er í góðum höndum hjá Skaganum, er að þróa sinn leik. Þetta var tækifæri fyrir hann að fara út og meta sig við Svía á hans aldri. Hann verður 17 ára í sumar og var mikið að æfa með U19 þarna úti sem gekk virkilega vel. Hann æfði líka með aðalliðinu og það gekk bara mjög vel," sagði Gunnar Heiðar.

„Það voru nokkrir leikmenn að taka sín fyrstu skref með Norrköping þegar ég var þarna á sínum tíma og ég tók svona svolítið utan um þá, það var gaman að sjá að núna eru þeir að gera það sama við son minn. Þeir tóku honum vel og voru mjög ánægðir með hann."

„Ég hef eiginlega alltaf verið í góðu sambandi við þessa klúbba sem ég hef verið í og kannski sérstaklega Norrköping af því það eru svo margir að vinna þarna ennþá frá því að ég var."

„Það er ekkert stress í einu eða neinu varðandi Gabríel, horfðum meira á þetta sem viðurkenningu fyrir gott ár hjá honum. og leyfa sig að meta sig við þessa stráka. Hann heldur núna að vinna í því sem þarf að bæta."

„Þetta var líka aðeins fyrir mig, fara og sjá aðeins hlutina hjá Norrköping með þjálfaraaugunum; vera hinu megin við borðið. Það var mjög skemmtilegt og góð samtöl í kringum það. Ég fékk aðeins öðruvísi innsýn miðað við hvernig maður sá þetta frá hinni hliðinni; sem leikmaður."

„Við höldum sambandinu, þeir munu pottþétt fylgjast með Gabríel í framtíðinni ásamt fleirum,"
sagði Gunnar Heiðar sem er þjálfari Njarðvíkur í Lengjudeildinni.

Gabríel Snær á að baki sjö leiki með unglingalandsliðunum og hefur í vetur verið í æfingahópum U17 landsliðsins.
Athugasemdir
banner
banner