Real Madrid tekur á móti Manchester City í risaslag í Meistaradeildinni annað kvöld.
Madrídingar fara inn í leikinn með eins marks forystu eftir 2-3 sigur í gríðarlega fjörugri fyrri viðureign sem fór fram á Etihad leikvanginum.
Man City hefur átt erfitt uppdráttar síðustu mánuði en sigraði þó sannfærandi 4-0 gegn Newcastle um helgina. Carlo Ancelotti þjálfari Real býst ekki við auðveldum leik.
Pep Guardiola þjálfari Man City sagði á fréttamannafundi að hann teldi City aðeins eiga 1% möguleika á að komast áfram í næstu umferð eftir tap í fyrri leiknum.
Ancelotti telur þetta vera taktík hjá kollega sínum til að reyna að kveikja í leikmönnum City og gera andstæðingana værukærari.
„Ég mun spyrja Pep Guardiola fyrir leik hvort hann trúi því sjálfur að Man City hafi bara 1% möguleika gegn okkur eins og hann sagði sjálfur," sagði Ancelotti á fréttamannafundi í dag.
„Við vitum að við eigum ekki 99% möguleika. Við teljum okkur vera með örlítið forskot sem við þurfum að nýta."
Athugasemdir