Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
   þri 18. febrúar 2025 23:09
Ívan Guðjón Baldursson
Gasperini brjálaður: Ein versta vítaskytta sem ég hef séð
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Gian Piero Gasperini þjálfari Atalanta var ósáttur eftir óvænt tap á heimavelli gegn Club Brugge í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.

Atalanta hafði tapað fyrri leiknum á útivelli eftir afar umdeildan vítaspyrnudóm á 93. mínútu og þurfti því sigur á heimavelli. Það fór ekki betur en svo að gestirnir frá Belgíu komust í þriggja marka forystu í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að heimamenn í liði Atalanta hafi átt mikið af færum.

Ademola Lookman hefur verið meiddur undanfarnar vikur og kom inn af bekknum í hálfleik í kvöld. Hann var snöggur að minnka muninn og kom boltanum svo aftur í netið en markið ekki dæmt gilt vegna rangstöðu. Eftir nánari athugun kom í ljós að Atalanta átti að fá vítaspyrnu og ákvað Lookman að stíga á punktinn, en hann klúðraði.

„Lookman átti ekki að taka þessa vítaspyrnu, hann er ein af verstu vítaskyttum sem ég hef nokkurn tímann séð. Meira að segja á æfingum er hann með mjög lágt hlutfall skoraðra vítaspyrna. Hann er virkilega slök vítaskytta," sagði Gasperini eftir tapið. „Hann vildi taka vítið eftir að hafa skorað fyrsta markið. Hann tók boltann og ákvað að fara sjálfur þó að Retegui og De Ketelaere hafi verið á vellinum. Mér líkar ekki við þetta sem hann gerði.

„Lookman er bara nýkominn úr meiðslum. Hann er í raun ennþá meiddur, það eru bara nokkrir dagar síðan það var sárt fyrir hann að sparka í bolta. Við spiluðum í raun flottan leik í kvöld en þegar við klúðruðum vítaspyrnunni róaðist þetta alltof mikið niður.

„Við spiluðum gegn sterkum andstæðingum sem eru með mjög fljóta leikmenn innanborðs og þeir refsuðu okkur í hvert skipti sem þeir fengu tækifæri til þess. Fyrri hálfleikurinn átti að enda 2-1 en í staðinn var staðan 3-0. Það féll allt gegn okkur í báðum þessum leikjum. Þeir verðskulduðu þennan sigur, við vorum ekki nógu góðir á stundunum sem það skipti mestu máli."


Þegar Club Brugge var tveimur mörkum yfir undir lok fyrri hálfleiks fékk Atalanta svakaleg dauðafæri en boltinn rataði ekki í netið. Þess í stað geystust gestirnir upp völlinn og skoruðu þriðja markið sitt.

„Við sköpuðum meira en þeir í báðum þessum leikjum og vorum hættulegir í okkar sóknaraðgerðum en við gátum ekki skorað nógu mörg mörk. Svo var okkur refsað fyrir nánast hver einustu mistök. Þessi keppni er mjög erfið og þetta er sárt fyrir okkur."

Sjáðu vítaspyrnuna
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner