Howard Webb yfirmaður dómarasambandsins viðurkennir að Michael Oliver gerði mistök þegar hann rak Myles Lewis-Skelly bakvörð Arsenal af velli í sigri gegn Wolves í lok janúar.
Miles-Skelly fékk beint rautt spjald fyrir að brjóta á Matt Doherty í skyndisókn. Oliver gaf rautt spjald og var Darren England í VAR-herberginu sammála ákvörðuninni.
Bakvörðurinn fékk sjálfkrafa þriggja leikja bann en Arsenal áfrýjaði þeim dómi og fékk honum hnekkt.
„Þetta átti að vera gult spjald, ekki rautt. Þetta eru samt ekki sérlega slæm mistök, ég get skilið hvernig þeir mátu þetta sem rautt spjald," sagði Webb meðal annars um dóminn og benti á að ábyrgðin hafi frekar legið hjá Darren England í VAR-herberginu heldur en Michael Oliver dómara.
Webb ræddi einnig um vítaspyrnuna sem Diogo Jota hélt hann væri búinn að fiska þar til atvikið var skoðað nánar með VAR-tækninni.
„Það var rétt að snúa vítaspyrnudóminum við og mjög skiljanlegt að dómarinn hafi dæmt vítaspyrnu til að byrja með. Þeir gerðu vel að snúa þessari ákvörðun við en þeir gleymdu að gefa Diogo Jota gult spjald fyrir leikaraskap, vegna þess að hann var vísvitandi að reyna að blekkja dómarann."
Athugasemdir