Willum Þór Willumsson var í byrjunarliði Birmingham City sem lagði Bradford City að velli í EFL Trophy bikarkeppni ensku neðrideildanna í kvöld.
Birmingham vann 2-1 þökk sé mörkum frá Jay Stansfield og Lyndon Dykes en Willum Þór lék fyrstu 93 mínútur leiksins. Alfons Sampsted var ekki í hóp.
Birmingham er komið í úrslitaleik EFL Trophy keppninnar eftir þennan sigur og mætir annað hvort Peterborough eða Wrexham þar.
Jón Daði Böðvarsson var þá í byrjunarliði Burton sem vann dýrmætan sigur á Stevenage og lyfti sér upp um tvö sæti í fallbaráttunni.
Jón Daði spilaði fyrstu 84 mínútur leiksins en Burton spilaði góðan leik og missti svo leikmann af velli snemma í síðari hálfleik, um svipað leyti og Stevenage klúðraði vítaspyrnu.
Varnarleikur Burton var frábær og tókst Jóni Daða og félögum að halda þetta út.
Burton er áfram í fallsæti eftir þennan sigur, með 29 stig eftir 32 umferðir. Liðið er tveimur stigum frá öruggu sæti.
Athugasemdir