Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
   þri 18. febrúar 2025 19:43
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Feyenoord sló Milan úr leik á San Siro
Mynd: EPA
Mynd: EPA
AC Milan 1 - 1 Feyenoord (1-2 samanlagt)
1-0 Santi Giménez ('1)
1-1 Julián Carranza ('73)

AC Milan tók á móti Feyenoord í fyrsta leik kvöldsins í Meistaradeild Evrópu, eftir að hafa tapað fyrri viðureign liðanna 1-0 á útivelli.

Feyenoord mætti því til Mílanó með eins marks forystu en hún lifði skammt því Santiago Giménez skoraði strax á fyrstu mínútu í kvöld. Giménez skoraði gegn sínum fyrrum liðsfélögum í kjölfar hornspyrnu, þar sem varnarmaðurinn Malick Thiaw skallaði boltann og náði Giménez að pota honum í netið.

Milan var talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora þrátt fyrir góð færi. Síðari hálfleikurinn byrjaði í sama fari en svo fékk Theo Hernández að líta seinna gula spjaldið sitt og var rekinn af velli. Hernández fékk seinna spjaldið fyrir mjög augljósa dýfu innan vítateigs. Sjáðu dýfuna.

Það ríkti þokkalegt jafnræði á vellinum eftir rauða spjaldið en gestunum frá Hollandi tókst að jafna leikinn og komast um leið yfir í viðureigninni. Hugo Bueno átti þá glæsilega fyrirgjöf sem Julián Carranza stangaði í netið af stuttu færi.

Tíu leikmenn Milan áttu engin svör og er ítalska stórveldið dottið úr leik. Feyenoord fer í 16-liða úrslitin!

Szymon Marciniak pólski dómari leiksins veifaði spjöldum, í það minnsta einu rauðu og einu gulu, eftir lokaflautið þegar starfsmenn og leikmenn Milan hópuðust að dómarateyminu.

Þess má geta að lið Feyenoord er alvarlega meiðslahrjáð og spilaði báða leikina gegn Milan án margra lykilmanna.
Athugasemdir
banner
banner