Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
   mið 19. febrúar 2025 11:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gylfi sá dýrasti í sögunni - „Hefði viljað sjá pakkadíl frá Val"
Gylfi er orðinn leikmaður Víkings.
Gylfi er orðinn leikmaður Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Siggi Lár í treyju Víkings 2012.
Siggi Lár í treyju Víkings 2012.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins.
Gylfi er markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson varð í gær dýrasti leikmaður sem íslenskt félag hefur keypt þegar Víkingur greiddi tæplega 20 milljónir króna til Vals fyrir hann. Fyrir var Óli Valur Ómarsson sá dýrasti en Breiðablik keypti hann frá sænska félaginu Sirius í vetur og Benedikt Warén var sá dýrasti ef horft er í félagaskipti milli íslenskra félaga, en hann var keyptur til Stjörnunnar frá Vestra í vetur.

Gylfi er einnig sá Íslendingur sem erlent félag hefur greitt hæstu upphæðina fyrir en Everton greiddi 45 milljónir punda þegar félagið keypti hann frá Swansea sumarið 2017.

Gylfi er 35 ára miðjumaður og atburðarás síðustu daga var á þá leið að Valur taldi best í stöðunni að samþykkja tilboð í hann. Gylfi skoraði 11 mörk í 19 deildarleikjum með Val á síðasta tímabili.

„Það var bara geggjað að sjá Gylfa koma í Víking, maður var þannig séð búinn að gefa þetta upp á bátinn, við vorum búnir að reyna nokkrum sinnum við hann. Svo gerðist þetta frekar hratt síðustu daga og þetta fór að kvissast út í morgun. Að fá (Staðfest) var bara geggjað," sagði Tómas Guðmundsson, fyrrum leikmaður Víkings, í hlaðvarpsspjalli í gær.

Gylfi fór einnig í viðræður við Breiðablik en niðurstaðan varð Víkingur.

„Maður heyrði fyrir nokkrum dögum að Blikarnir væru líklegir, en maður vissi að Víkingur myndi alltaf jafna tilboð þeirra. Eftir að ég hugsaði þetta meira og meira hafði ég alltaf trú á því að hann myndi velja Víking fram yfir Blika."

„Þetta er akkúrat maðurinn sem okkur vantar, við erum að missa (Danijel) Djuric, Gylfi kemur bara inn fyrir hann ef við hugsum það þannig. Svo er Gísli (Gottskálk Þórðarson) farinn, Pablo (Punyed) er að stíga upp úr meiðslum og við reiknum fastlega með því að Ari (Sigurpálsson) fari fljótlega eftir Evrópuleikina. Þetta var akkúrat það sem þurfti, einhver stór kaup, og það gerist ekki stærra en þetta. Ég er nokkuð viss um að við séum ekki hættir og að það komi fleiri nöfn fyrir mót,"
sagði Tómas.

Vonaðist eftir að fá Sigga Lár líka
Tómas sagði í þættinum að hann hefði vonast eftir pakkadíl frá Val; að jafnaldri sinn, Sigurður Egill Lárusson, kæmi líka í Víking. Sigurður Egill er fæddur árið 1992, er uppalinn hjá Víkingi en hefur verið hjá Val frá árinu 2013. Sigurður Egill verður samningslaus í lok árs.

„Þú stekkur á það ef að Gylfi býðst, þótt það kosti 20 milljónir. Ég hefði viljað sjá pakkadíl frá Val, fá Sigurð Egil með. Sérstaklega ef Kalli (Karl Friðleifur Gunnarsson) fer út, þá vantar vinstri bakvörð, ég var að láta mig dreyma í morgun að þetta yrði pakkadíll en það verður kannski af því einhvern tímann (að Siggi komi frá Val)," sagði Tómas.

Hlaðvarpið má nálgast í spilaranum hér að neðan.
Og allt í einu er Gylfi kominn í Víking
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner