Líklegra að Nunez verði seldur frá Liverpool - Wharton einn af þeim sem eru orðaðir við Man Utd - City á leið í endurbyggingu - Newcastle til í...
   fim 20. febrúar 2025 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Axel Kári stígur til hliðar og kveður ÍR-inga
Axel Kári handsalar hér samning við Marc McAusland.
Axel Kári handsalar hér samning við Marc McAusland.
Mynd: ÍR
Axel fagnar marki með ÍR.
Axel fagnar marki með ÍR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Axel Kári Vignisson hefur kvatt ÍR þar sem hann hefur starfað síðastliðin ár sem formaður knattspyrnudeildar. Hann er að taka við sem lögfræðingur hjá KSÍ.

„Knattspyrnudeild ÍR vill óska Axeli Kára Vignissyni góðs gengis í nýja starfinu hjá KSÍ og þakkar honum fyrir verulega góð og óeigingjörn störf í þágu félagsins," segir í tilkynningu ÍR.

Nú mun einhver taka við hans hlutverki hjá Breiðholtsfélaginu en Axel Kári, sem lék lengi fyrir ÍR á leikmannaferli sínum, kvaddi ÍR-inga með skilaboðum.

Kveðja Axels Kára til ÍR
Kæru ÍR-ingar,

Eins og mörg ykkar vita eflaust mun ég hefja störf hjá skrifstofu KSÍ sem lögfræðingur sambandsins í mars. Ég hef af því tilefni tilkynnt stjórn og skrifstofu ÍR að ég geti ekki sinnt hlutverki formanns knattspyrnudeildar ÍR áfram.

Það hefur verið mikill heiður að vera formaður knattspyrnudeildar hjá uppeldisfélagi mínu og geta gefið til baka til félagsins sem hefur leikið stóran þátt í lífi mínu og fjölskyldu minnar. Þetta hefur verið krefjandi og lærdómsríkur tími en jafnframt mjög gefandi. Knattspyrnudeild ÍR stendur vel og ég er fullviss um að deildin muni halda áfram að vaxa bæði innan vallar og utan. Félagið er fullt af efnilegum leikmönnum sem ég er viss um að munu láta ljós sitt skína á næstu árum. Uppgang ÍR sl. ár má þakka óeigingjarnri vinnu fjölda fólks sem kemur að félaginu og ég hvet alla sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu að bjóða fram sína krafta til að tryggja áframhaldandi vöxt félagsins og hlúa að iðkendum þess.

Á sama tíma og ég vil þakka öllum sem hafa komið að starfi knattspyrnudeildar sl. tvö og hálft ár fyrir samstarfið og stuðninginn langar mig að óska stjórn, leikmönnum, þjálfurum og öllum ÍR-ingum góðs gengis í sumar.

Sjáumst á vellinum!
Axel Kári
Athugasemdir
banner
banner
banner