Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
   mið 19. febrúar 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
María Lena í HK (Staðfest)
Mynd: HK
María Lena Ásgeirsdóttir snýr aftur til HK eftir tveggja ára fjarveru en hún lék síðast með Sindra í 2. deild í fyrra.

María Lena, sem skoraði tvö mörk í tveimur leikjum með Sindra, er uppalin hjá HK og var lykilleikmaður hjá meistaraflokki á táningsárunum. Hún skoraði 17 mörk í 16 leikjum í 2. deild kvenna sumarið 2020 en fann ekki taktinn í Lengjudeildinni.

Hún skipti yfir til Örebro í Svíþjóð árið 2022 til að búa úti með kærasta sínum Valgeiri Valgeirssyni. Valgeir er kominn aftur til Íslands og skrifaði undir samning við Breiðablik í vetur. Kærustuparið mun því leika fyrir sitthvort Kópavogsliðið á komandi misserum.

María Lena gerir þriggja ára samning við HK sem endaði í fjórða sæti Lengjudeildarinnar í fyrra, aðeins fjórum stigum frá öðru sætinu eftirsótta sem veitir þátttökurétt í Bestu deildina.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá Maríu heim í HK. Það skiptir okkur miklu máli að uppaldar stelpur fái stór hlutverk og dyrnar standa þeim alltaf opnar að snúa aftur til félagsins. María hefur komið mjög sterk inn í hópinn, hún er jákvæður leiðtogi sem á eftir að hjálpa okkur mikið í sumar og næstu árin," segir meðal annars í tilkynningu frá HK.
Athugasemdir
banner