Chelsea ætlar sér að vinna baráttuna um Guehi - Liverpool og Man City á eftir Frimpong - Tveir orðaðir við Arsenal - Al-Ahli gæti gert Vinicius að...
   þri 18. febrúar 2025 18:55
Ívan Guðjón Baldursson
Valverde byrjar í bakverði: Tilbúinn að spila hvar sem er
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Úrúgvæski miðjumaðurinn Federico Valverde hefur verið mikilvægur leikmaður í liði Real Madrid undanfarin ár og er hann búinn að skora 8 mörk í 40 leikjum á yfirstandandi leiktíð.

Valverde er gríðarlega fjölhæfur leikmaður og hefur Carlo Ancelotti þjálfari Real verið að nota hann mikið sem hægri bakvörð vegna meiðslavandræða í leikmannahópnum. Hann mun að öllum líkindum byrja í hægri bakvarðarstöðunni þegar Madrídingar taka á móti Manchester City í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Lucas Vázquez og Daniel Carvajal eru hægri bakverðir liðsins en þeir hafa verið meiddir í síðustu leikjum. Carvajal verður frá keppni út tímabilið á meðan Vázquez er að nálgast fulla heilsu og byrjar á bekknum gegn City.

„Það er ekkert mál fyrir mig að spila í hægri bakverði. Ég er hérna fyrir Real Madrid og fyrir Ancelotti. Ég er tilbúinn til að spila í hvaða stöðu sem mér er sagt að spila í," sagði Valverde í dag. Hann er einn af fjórum fyrirliðum Real Madrid ásamt fyrrnefndum Vázquez og Carvajal, auk Luka Modric.

„Að vera fyrirliði Real Madrid er mikill heiður, því fylgir gríðarlegt stolt og mikil ábyrgð."

Valverde talaði einnig um dómgæsluna í spænsku deildinni, sem Madrídingar telja sig hafa verið að lenda ansi illa í að undanförnu. Jude Bellingham var rekinn af velli fyrir kjaftbrúk í óvæntu jafntefli gegn Osasuna um helgina, sem varð til þess að Real Madrid missti toppsæti La Liga til erkifjendanna í Barcelona.

„Ég hef ekkert rætt um dómgæsluna í spænska boltanum útaf því að ég er einbeittur að morgundeginum. Allur heimurinn getur séð hvað er að gerast fyrir Real Madrid í La Liga. Ég hef ekki gleymt því, ég mun alltaf vera til staðar til að verja klúbbinn. Það er 100%."

Antonio Rüdiger og David Alaba eru einnig komnir úr meiðslum og snúa aftur í leikmannahóp Real Madrid annað kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner