Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 19. mars 2021 11:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Cecilía leikur í Svíþjóð í sumar - „Ótrúlega glöð að vera komin á þennan stað"
Ég er fyrst og fremst bara mjög þakklát að hafa fengið tækifæri á því að ganga í svona stórt félag
Ég er fyrst og fremst bara mjög þakklát að hafa fengið tækifæri á því að ganga í svona stórt félag
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis.
Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Magnússon, markmannsþjálfari.
Þorsteinn Magnússon, markmannsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cecilía Rán Rúnarsdóttir mun spila með sænska liðinu Örebro á komandi leiktíð. Hún kemur til félagsins frá Fylki. Hún mun svo samkvæmt heimildum Fótbolta.net skrifa undir samning hjá enska félaginu Everton þegar hún verður átján ára.

Cecilía er markvörður sem leikið hefur með Fylki undanfarin tvö sumur en er uppalin í Aftureldingu. Hún á að baki einn A-landsleik og fjölda unglingalandsleikja.

Cecilía var kynnt sem leikmaður Örebro í dag og getur leikið sinn fyrsta leik fyrir félagið á sunnudag í sænska bikarnum. Fótbolti.net heyrði í Cecilíu á dögunum og spurði hana út í skiptin.

Ánægð að geta tekið þetta skref
Af hverju fer Cecilía til Örebro?

„Örebro var ekkert inni í myndinni í langan tíma en fyrir nokkrum vikum meiddist markvörðurinn þeirra mjög alvarlega á hné og það var haft samband. Þannig það má segja að það gerðist frekar hratt, ég mæti auðvitað hingað til þess að verða betri og mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að fá að spila. En það er ekkert gefið í þessu og ég er alveg meðvituð um það."

Er þetta rökrétt næsta skref á ferlinum, Ísland svo Svíþjóð og næst England?

Cecilía sagðist vita af áhuga Everton en gæti ekki gæti ekki tjáð sig frekar um enska félagið að svo stöddu.

„Já, ég er mjög ánægð að geta tekið þetta skref og spilað í Svíþjóð í sumar. Sænska deildin er gott skref frá Íslandi, hún er mjög sterk út frá því sem ég hef séð og fyrstu dagarnir hér hafa verið mjög fínir og mér líst vel á framhaldið."

Hrós á umboðsmanninn og foreldrana
Cecilía þarf að spila ákveðið marga leiki í sterkum deildum til þess að fá atvinnuleyfi á Englandi og hjálpar að taka skrefið til Svíþjóðar.

„Ég er ótrúlega glöð hvernig þetta náði að þróast og að vera komin á þennan stað. Ég verð einnig að henda stóru hrósi á umboðsmanninn, mömmu og pabba en það fór ómældur tími í allt ferlið í vetur og þetta hefði aldrei gengið án þeirra."

Var Cecilía alveg ákveðin á því síðasta haust að það væri réttast að fara erlendis á þessum tímapunkti?

„Nei ég var alls ekkert ákveðin og vildi halda öllum möguleikum opnum en samt sem áður fann ég fyrir vilja fyrir því að taka næsta skref upp á við og fannst þetta réttur tímapunktur til þess."

Flytur hún ein út?

„Nei, pabbi flytur með mér allavegana svona til að byrja með. Ég er komin með íbúð sem við verðum í."

Þjálfararnir studdu hana í þessari ákvörðun
Fékk Cecilía ráðleggingar frá Kjartani þjálfara eða Steina markmannsþjálfara þegar hún var að taka ákvörðun? Jafnvel frá landsliðskonum sem spila erlendis?

„Ég var í góðu sambandi við Steina og Kjartan allan tímann og þeir studdu 100% við bakið á mér þegar ég var að taka þessa ákvörðun. Ég heyrði einnig í einhverjum landsliðskonum en það var samt aðallega varðandi önnur lið sem ég var að skoða líka. Allir sem ég talaði við hjálpuðu mér mikið og ég er mjög þakklát fyrir það," sagði Cecilía.
Athugasemdir
banner
banner
banner