Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 19. október 2022 08:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Með fast skot á Howe eftir ummæli hans um Klopp
Eddie Howe.
Eddie Howe.
Mynd: EPA
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eddie Howe, stjóri Newcastle, talaði um kollega sinn Jurgen Klopp á fréttamannafundi í gær.

Klopp fékk rauða spjaldið í 1-0 sigrinum á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

Klopp missti sig á 85. mínútu eftir að Anthony Taylor og aðstoðardómarar hans dæmdu ekki brot á Bernardo Silva sem reif Mohamed Salah niður á vængnum.

Howe gagnrýndi Klopp þegar hann sagði: „Ég er mjög meðvitaður um að milljónir manna munu líta á mig, sérstaklega börn, og ég held að þú verðir að tryggja það að leikurinn sé leikinn á réttan hátt og með réttum anda."

Howe segir að hann passi það alltaf vel að hegða sér vel á hliðarlínunni.

Mikið hefur verið rætt um það á samfélagsmiðlum að Howe hafi ákveðið að tjá sig um Klopp á þessum fréttamannafundi. Netverjar hafa rifjað það upp þegar Howe og aðstoðarmaður hans, Jason Tindall, voru ákærðir af enska fótboltasambandinu árið 2015 fyrir að setja spurningamerki við heillindi dómara.

Þá skaut enski fjölmiðlamaðurinn Daniel Austin fast á Howe þegar hann sagði: „Hann er andlit í 'sportwashing' fyrir einræðisríki sem myrðir blaðamenn og börn í Jemen en hann dregur línuna við að öskra á línuvörð."

„Hann er greinilega með mjög flottan siðferðislegan áttavita."

Eigendur Newcastle koma frá Sádí-Arabíu og eru gríðarlega umdeildir, meðal annars vegna mannréttindabrota í gegnum árin. Þau brot gerðu yfirtökuna - sem fór fram á síðasta ári - flóknari. Fjárfestarnir, sem komu með 80% af peningunum fyrir kaupunum, þurftu að sanna að hópurinn væri aðskilinn ríkisstjórn Sádi-Arabíu en margir efast um að svo sé.

Fjallað hefur verið um það aðalástæðan fyrir yfirtökunni á Newcastle sé hvítþvottur hjá Sádí-Arabíu, það sé verið að reyna að bæta orðspor landsins með því að eiga fótboltafélag. Það er orðin þekkt stærð að stjórnvöld í löndum þar sem mannréttindi eru ekki í hávegum höfð kaupi fótboltafélög til að reyna að bæta orðspor sitt (e. sportswashing). Newcastle og Sádí-Arabía er eitt dæmi um það.

Þess má geta að KSÍ ætlar að hjálpa til í hvítþvættinum í næsta mánuði þegar íslenska landsliðið spilar við Sádí-Arabíu í vináttulandsleik.

Klopp hefur verið ákærður fyrir framkomu sína um helgina. Sá þýski á von á sekt og leikbanni fyrir hegðun sína á hliðarlínunni gegn City.


Athugasemdir
banner
banner
banner