Rúben Amorim var svekktur eftir 4-3 tap Manchester United í 8-liða úrslitum deildabikarsins í kvöld. Rauðu djöflarnir lentu 3-0 undir en tókst að vinna sig aftur inn í leikinn.
Viðureignin einkenndist af varnar- og markvarðamistökum en Amorim neitaði að tjá sig um einstaklingsmistök að leikslokum.
„Mér fannst við vera betra liðið í dag. Við vorum ekki betra liðið allan leikinn, en stærsta hluta leiksins þá vorum við sterkari. Við misstum samband við raunveruleikann í átta mínútur í byrjun síðari hálfleiks og það var erfitt að jafna sig eftir það, en strákarnir brugðust virkilega vel við. Við komumst mjög nálægt því að jafna leikinn en fjórða markið þeirra drap okkur endanlega," sagði Amorim, sem gerði þrefalda skiptingu í stöðunni 3-0. Sú skipting átti eftir að skila mörkum frá Joshua Zirkzee og Amad Diallo, sem nægðu þó ekki til að jafna leikinn.
„Ég á engar tilfinningar eftir í kvöld. Ég mun nota morgundaginn til að hugsa um kvöldið í kvöld. Það er ekkert sem ég get sagt um hvað var jákvætt í þessum leik og hvað var neikvætt. Ég get sagt allt á morgun. Við töpuðum í kvöld og þurfum að nýta nóttina til að hugsa okkur um. Við munum draga mikilvægan lærdóm af þessu tapi.
„Við erum stöðugt að bæta okkur sem lið. Markmiðið okkar er að vinna ensku úrvalsdeildina en ég veit ekki hversu langan tíma það mun taka að komast þangað. Það er mjög langt í það."
Amorim var að lokum spurður út í Marcus Rashford, sem virðist vera í skammarkróknum.
„Hann mætir á æfingu með liðsfélögum sínum á morgun og þá sjáum við til hvernig framhaldið verður. Eins og staðan er í dag þá er hann leikmaður Manchester United og á framtíð hjá félaginu eins og aðrir leikmenn."
Athugasemdir