City vill Guehi - Rashford orðaður við Atletico og Arabíu - Real Madrid hyggst funda með Trent í janúar
banner
   fim 19. desember 2024 22:09
Ívan Guðjón Baldursson
Enski deildabikarinn: Tottenham vann eftir ótrúlegan sjö marka leik
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tottenham 4 - 3 Manchester Utd
1-0 Dominic Solanke ('15 )
2-0 Dejan Kulusevski ('47 )
3-0 Dominic Solanke ('54 )
3-1 Joshua Zirkzee ('63 )
3-2 Amad Diallo ('70 )
4-2 Son Heung-Min ('88 )
4-3 Jonny Evans ('95 )

Stórskemmtilegum fótboltaleik var að ljúka rétt í þessu þar sem Tottenham Hotspur fékk Manchester United í heimsókn í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins.

Tottenham leiddi 1-0 eftir nokkuð tíðindalítinn fyrri hálfleik þar sem Dominic Solanke skoraði eina markið á fimmtándu mínútu, þegar hann fylgdi langskoti frá Pedro Porro eftir með marki. Solanke var fyrstur að átta sig og gerði vel að ná strax til boltans.

Tottenham byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og tvöfaldaði Dejan Kulusevski forystuna snemma eftir afar slakan varnarleik Man Utd, þar sem Lisandro Martínez potaði boltanum út á Kulusevski sem skoraði af stuttu færi.

Solanke skoraði svo þriðja mark heimamanna skömmu síðar eftir langan bolta yfir varnarlínuna. Martínez leit ekki vel út þegar Solanke skoraði þetta mark.

Rúben Amorim gerði þrefalda skiptingu þar sem Amad Diallo, Joshua Zirkzee og Kobbie Mainoo komu inn af bekknum. Zirkzee minnkaði muninn á 63. mínútu eftir slæm markmannsmistök hjá Fraser Forster sem sendi boltann óvart á Bruno Fernandes þegar hann var undir pressu. Fernandes kom boltanum á Zirkzee sem skoraði í autt mark.

Amad minnkaði muninn svo niður í eitt mark eftir önnur hrikaleg mistök hjá Forster sem réði ekki við pressuna frá framherjum Man Utd í kvöld. Í þetta skiptið var Forster alltof lengi að hreinsa boltann í burtu og var Amad mættur í hápressu, þar sem honum tókst að tækla boltann í netið og staðan var þá orðin 3-2.

Rauðu djöflunum tókst ekki að jafna leikinn, þess í stað tvöfaldaði Son Heung-min forystu Spurs á ný með marki beint úr hornspyrnu. Lagleg hornspyrna frá Son sveif yfir Altay Bayindir á marklínunni og endaði í fjærhorninu.

Man Utd henti öllu í sóknina á lokamínútunum og tókst Jonny Evans að minnka muninn aftur niður í eitt mark seint í uppbótartíma, með skalla eftir hornspyrnu. Forster átti að verja boltann en missti hann í markið.

Rauðu djöflarnir reyndu að sækja sér jöfnunarmark á lokamínútunum en tókst ekki. Lokatölur 4-3 fyrir Tottenham, sem fer í pottinn með Arsenal, Liverpool og Newcastle fyrir undanúrslitadráttinn.

Tottenham verðskuldaði sigur í stórðfurðulegum leik í dag, þar sem öll mörk Man Utd geta skrifast á mistök hjá Forster.

Forster er 36 ára gamall og er varamarkvörður hjá Tottenham. Hann er að fylla í skarðið fyrir hinn ökklabrotna Guglielmo Vicario.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner