Gabriel Jesus, framherji Arsenal, skoraði öll þrjú mörk liðsins í 3-2 sigrinum á Crystal Palace í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í gær, en hann segir alla erfiðisvinnuna loksins vera að skila sér.
Jesus hafði aðeins skorað eitt mark á tímabilinu áður en leikurinn gegn Palace hófst.
Hann hefur ekki alveg náð sér á flug á tímabilinu en vonar að þetta sé vendipunkturinn.
„Ég klæðist 'níunni' í Arsenal þannig ég verð að skora mörk, sama á við um Kai Havertz. Við erum framherjar liðsins og það er pressa á okkur að skora.“
„Ef þú vilt berjast um sæti í liðinu þá verðum við að halda áfram að skora. Það er ekki auðvelt annars væru margir framherjar í heiminum, en við höldum áfram að reyna.“
„Ég er ánægður með mörkin en mun ánægðari með sigurinn því við erum komnir í undanúrslit. Það er fullt af fólki sem horfir ekki á leikina og skoðar bara tölfræði og hver skoraði mörkin. Kannski vinnum við 1-0 og ég geri ágætis hluti, en skora ekki og við vinnum leikinn.“
„Ég kom hingað til að vinna ensku úrvalsdeildina og á fyrstu tveimur tímabilum mínum vorum við í baráttunni en það vantaði eitthvað upp á. Á þessu þriðja tímabili vil ég vinna deildina,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir