Bernard Arnault og fjölskylda hans er búin að ganga frá kaupum á franska félaginu Paris FC.
Arnault fjölskyldan er talin ein sú allra ríkasta í heiminum og er engin ríkari fjölskylda til samkvæmt Forbes listanum, sem inniheldur þó ekki arabískt kóngafólk eða aðra sem hafa erft sín auðæfi án mikillar nýsköpunar.
Arnault fjölskyldan á stærstu snyrtivörumerki heims og er metin á meiri pening heldur en Jeff Bezos hjá Amazon, Bill Gates hjá Microsoft eða Marc Zuckerberg hjá Facebook.
Franskir fjölmiðlar hafa verið að velta því fyrir sér hvort Paris FC geti tekið yfir stöðu Paris Saint-Germain með tímanum, þar sem peningurinn er svo sannarlega til staðar. Það virðist þó ekki vera markmið Paris FC.
Eigendurnir vilja halda Paris FC sem smærra liðinu í París. Þeir vilja að félagið einbeiti sér að því að spila á ungum og uppöldum leikmönnum og verður helsta markmið þess í framtíðinni að spila í Meistaradeild Evrópu á hverju ári.
Red Bull samsteypan keypti 11% í Paris FC í eigendaskiptunum í nóvember og er líklegt að Antoine Arnault, elsti sonur Bernard, muni skipta sér mikið af rekstri félagsins. Þá er einnig talið að Jürgen Klopp muni starfa náið með stjórnendum Paris FC til að byrja með, en Klopp hefur störf hjá Red Bull eftir áramót.
Paris FC leikur í næstefstu deild og er þar í toppbaráttu sem stendur, með 31 stig eftir 16 umferðir.
Í gegnum tíðina hefur félagið framleitt öfluga fótboltamenn á borð við Axel Disasi, Ibrahima Konaté og Nordi Mukiele.
Athugasemdir