Tom Lockyer, varnarmaður Luton Town, hefur verið ótrúlega óheppinn síðustu 14 mánuði.
Hann fór í hjartastopp í viðureign Luton gegn Bournemouth í október í fyrra og var að gera sig tilbúinn til að snúa aftur á fótboltavöllinn rúmu ári síðar.
Lockyer, sem er 30 ára gamall, var algjör lykilmaður í liði Luton en fékk ekki tækifæri til að hjálpa liðsfélögum sínum að halda sér í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð vegna fjarveru sinnar frá fótbolta.
Hann var byrjaður að æfa með liðsfélögunum og stefndi aftur á völlinn fyrir áramót, en meiddist á ökkla á æfingu og í ljós hefur komið að Lockyer þarf að fara í aðgerð.
„Endurhæfingin gekk mjög vel, hann var búinn að koma sér vel inn í æfingarnar með strákunum og næsta skref var að spila fyrir varaliðið," segir Rob Edwards þjálfari Luton.
„Þetta er ótrúlega svekkjandi fyrir hann eftir alla þessa vinnu sem hann hefur lagt í endurhæfinguna. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að Tom snúi aftur á fótboltavöllinn um leið og hann jafnar sig af ökklameiðslunum."
Búist er við að Lockyer verði frá í tvo til þrjá mánuði vegna ökklameiðslanna.
Luton hefur átt afar slakan fyrri hluta tímabils í Championship deildinni og er í fallbaráttu sem stendur, með 22 stig eftir 21 umferð.
Athugasemdir