Guðmunda Brynja Óladóttir er komin aftur heim í Selfoss eftir átta ára fjarveru en hún gerir eins árs samning við uppeldisfélagið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag.
Guðmunda Brynja er þrítug og spilar stöðu sóknarmanns en hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Selfyssingum árið 2009 og tveimur árum síðar hjálpaði hún liðinu að komast upp í efstu deild.
Sumarið 2013 var hún valin besti ungi leikmaður Pepsi deildarinnar og var þá fyrirliði liðsins er það komst í bikarúrslit árin 2014 og 2015.
Árið 2016 samdi hún við Stjörnuna í Garðabæ þar sem hún lék tvö tímabil áður en hún gekk í raðir KR.
Framherjinn féll með KR niður í Lengjudeildina árið 2020 en skoraði síðan 13 mörk er liðið fór beint aftur upp ári síðar. Guðmunda yfirgaf félagið árið 2022 er KR féll aftur niður um deild og samdi hún við HK þar sem hún hefur verið síðustu tvö tímabil.
Hún er nú komin aftur heim í Selfoss og gerir samning út tímabilið en það er risastórt verkefni framundan hjá Selfyssingum sem hafa fallið niður um tvær deildir á einu ári.
Guðmunda á 137 mörk í deild- og bikar ásamt því að eiga 15 A-landsleiki og eitt mark.
Athugasemdir