Chelsea leggur aukna áherslu á að fá Mainoo - Milan vill Mitchell - Phillips gæti snúið aftur til Leeds
   lau 21. desember 2024 21:52
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Napoli á toppinn - Lazio aftur á sigurbraut
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveimur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í ítalska boltanum þar sem Napoli og Lazio unnu útileiki gegn Genoa og Lecce.

Í Genúa komust gestirnir í liði Napoli, sem er systurfélag Genoa, í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik.

André-Frank Zambo Anguissa og Amir Rrahmani skoruðu mörk Napoli og tókst Andrea Pinamonti að minnka muninn fyrir heimamenn í upphafi síðari hálfleiks.

Heimamenn í liði Genoa spiluðu góðan seinni hálfleik en þeim tókst þó ekki að gera jöfnunarmark gegn skipulögðum lærisveinum Antonio Conte. Napoli stóð uppi sem sigurvegari, 1-2, og trónir á toppi Serie A deildarinnar.

Napoli er með 38 stig eftir 17 umferðir og getur misst toppsætið til Atalanta sem er einu stigi á eftir og með leik til góða á morgun.

Lazio er í fjórða sæti með 34 stig eftir sigur í Lecce, þar sem Taty Castellanos tók forystuna með marki úr vítaspyrnu eftir að Frédéric Guilbert hafði fengið beint rautt spjald fyrir að verja boltann með hendi innan vítateigs.

Lazio var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en leikurinn jafnaðist mikið út eftir leikhlé, þegar heimamenn í liði Lecce léku manni færri.

Tete Morente jafnaði metin fyrir Lecce í upphafi síðari hálfleiks og var leikurinn afar tíðindalítill allt þar til á 87. mínútu, þegar Adam Marusic skoraði sjaldgæft mark.

Þetta reyndist sigurmark leiksins og dýrmæt þrjú stig í hús fyrir Lazio, sem er komið aftur á sigurbraut eftir að hafa tapað 0-6 á heimavelli í síðustu umferð.

Lecce og Genoa eru í neðri hluta deildarinnar, með 16 stig eftir 17 umferðir.

Genoa 1 - 2 Napoli
0-1 Andre Zambo Anguissa ('15 )
0-2 Amir Rrahmani ('23 )
1-2 Andrea Pinamonti ('51 )

Lecce 1 - 2 Lazio
0-1 Valentin Castellanos ('45 , víti)
1-1 Tete Morente ('50 )
1-2 Adam Marusic ('87 )
Rautt spjald: Frederic Guilbert, Lecce ('45)
Athugasemdir
banner
banner
banner